Samfélagsmiðlar

Bindur vonir við Keflavíkurflug frá Ísafirði og Egilsstöðum

flugvel innanlands isavia

Ráðherra ferðamála segir viðbrögðin við fluginu milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar vera vísbendingu um að flugið geti eflst víðar. Hún segir stjórnvöld líka vinna að opnun fleiri gátta inn í landið. Ráðherra ferðamála segir viðbrögðin við fluginu milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar vera vísbendingu um að flugið geti eflst. Hún segir stjórnvöld líka vinna að opnun fleiri gátta inn í landið.
Í síðustu viku febrúarmánaðar hóf Air Iceland Connect að fljúga reglulega milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar en þess háttar áætlunarflug hefur hingað til aðeins verið í boði yfir sumarmánuðina. Samtals höfðu um 2700 farþegar sér þetta flug í lok apríl samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu og þar af voru útlendingar um sjö af hverjum tíu farþegum líkt og kom fram í grein Túrista. Þar var haft eftir Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands að þetta flug væri gríðarlega mikilvæg viðbót fyrir ferðaþjónustuna fyrir norðan. En á öllum helstu alþjóðaflugvöllum í löndunum í kringum okkur geta farþegar tengt saman innanlands- og millilandaflug, öfugt við það sem hefur tíðkast hér á landi. 
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur talað fyrir betri dreifingu ferðamanna um landið og í svari til Túrista segir hún að þetta nýja áætlunarflug, milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar, vera jákvætt skref. „Það er sérstaklega mikilvægt yfir vetrarmánuðina þar sem ferðahegðun fólks er almennt öðruvísi en yfir sumarmánuðina og fólk dvelur almennt í skemmri tíma. Því er ennþá mikilvægara að flugsamgöngur séu greiðar og fólk komist á áfangastað á sem stystum tíma með sem minnstri fyrirhöfn. Viðbrögðin hafa verið jákvæð sem gefur okkur vísbendingu um að flugið geti eflst enn frekar.“
En telur ráðherra mikilvægt að efla innanlandsflug í tengslum við alþjóðflug um Keflavíkurflugvöll, til dæmis með tíðari ferðum og fleiri áfangastöðum? „Ég bind vonir við að flugleiðin Keflavík – Akureyri sé komin til að vera og vonandi verður hægt að fljúga á fleiri staði s.s. Egilsstaði og Ísafjörð í framhaldinu. Slíkt myndi gjörbreyta forsendum varðandi heilsársferðaþjónustu á þessum stöðum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Stefnan að opna fleiri gáttir til landsins

Lengi hefur verið unnið að því að koma á reglulegu millilandaflugi frá Akureyri eða Egilsstöðum en sú vinna hefur litlum árangri skilað. Á síðasta kjörtímabili var svo settur á stofn flugþróunarsjóður sem ætlað er að styðja við millilandaflug á þessa tvo staði en reglum hans var nýverið breytt og nú er innanlandsflug, í tengslum við millilandaflug, líka gjaldgengt. Ráðherra ferðamála segir að hún telji ekki að nærtækara sé að efla flugsamgöngurnar frá Keflavík og út á land í stað þess að setja megin áherslu á beint millilandaflug frá Akureyri og Egilsstöðum. „Í mínum huga þarf það að ekki að vera annað hvort eða hvað þetta varðar. Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að vinna að opnun fleiri gátta inn í landið með stofnun Flugþróunarsjóðs, auk þess sem landshlutarnir sjálfir hafa unnið ötullega að markaðssetningu sinna svæða. Ég held að það sé engin ástæða til að breyta um kúrs á þessu stigi og frekar ætti að líta á beint tengiflug frá Keflavík sem eitt púslið í heildarmyndinni. Frá sjónarhorni stjórnvalda er aðalatriðið að stuðningsaðgerðirnar séu skilvirkar og skili tilætluðum árangri.“

Vill sjá öflugt flug allt árið

Í maí hefur Keflavíkurflugið frá Akureyri takmarkst við brottfarir um helgar og svo verður áfram í allt sumar og fram í byrjun haust. Næstkomandi vetur verða ferðirnar hins vegar í boði alla vikuna og Þórdís Kolbrún, líkt og framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að heppilegra hefði verið ef brottförunum hefði ekki fækkað í sumar. „Það væri í samræmi við stefnu stjórnvalda og helst vildum við sjá öflugt flug á heilsársgrundvelli. Áfangastaðir eru í mjög mörgum tilfellum framboðsdrifnir m.t.t. flugs og því er mikilvægt að opna fleiri áfangastaði á Íslandi, hvort heldur með beinu millilandaflugi eða greiðum tengingum við Keflavíkurflugvöll. Aftur nefni ég að viðbrögðin hafa verið jákvæð sem gefur okkur vísbendingu um að flugið geti eflst enn frekar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Farþegum í innanlandsflugi fjölgar sáralítið

Fyrstu fjóra mánuði ársins fjölgaði farþegum á Keflavíkurflugvelli um 55,9% en aðeins um 1,2% á innanlandsflugvöllunum samkvæmt tölum Isavia. Hins vegar nam aukningin á Akureyrarflugvelli 9,2 prósent eða nærri 5.300 farþegum. En eins og kom fram hér að ofan þá nýttu um 2.700 farþegar sér Keflavíkurflugið frá Akureyrarflugvelli á því tímabili. Þetta nýja flug stóð því undir um helmingi af farþegaaukningunni fyrir norðan fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við farþegatölur frá Isavia og Air Iceland Connect. Túristi hefur óskað eftir upplýsingum um fjölda farþega á hverri flugleið en ekki fengið en þess háttar upplýsingar eru til að mynda opinberar í Bretlandi og í Danmörku. Þó hefur komið fram að tveir þriðju af farþegaaukningunni á Akureyrarflugvelli í mars kom til vegna fjölgunar í flugi milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …