Samfélagsmiðlar

Ísafjörður í harðri samkeppni við útlönd um skíðagöngufólk

Ísafjörður eða Týról? Samkeppnin um íslenskt skíðagöngufólk fer harðnandi, eins og Halla Ólafsdóttir segir frá. Dregið hefur úr aðsókn á helgarnámskeið á Ísafirði, sem eru mikilvæg forsenda hótelreksturs í bænum yfir veturinn. Fossvatnsgangan í apríl er vinsæl en ef fjölga ætti erlendum þátttakendum þyrfti fleiri fullbúin hótelherbergi.

Engu námskeiði er aflýst þó veðrið versni - MYND: Hólmfríður Vala

Fyrst skráði fólk sig í hlaupahóp, svo keypti stór hluti þjóðarinnar sér fjallahjól áður en gönguskíðin ruku út. Skíðagangan fékk svo byr undir báða vængi í heimsfaraldrinum, þegar hún var ein af fáum íþróttum sem fólk gat stundað. Eftir mörg ár af eftirsóttum helgarnámskeiðum í skíðagöngu á Ísafirði virðist Ísafjörður kominn í erfiða samkeppni – við útlönd. 

Konur á góðri braut – MYND: Hólmfríður Vala

Vinsæl skíðagöngunámskeið á gömlum grunni

Fossavatnsganga á Ísafirði er elsta skíðaganga landsins og var fyrst haldin 1935. Frá árinu 1956 hefur hún farið fram á hverju ári, fyrir utan árið 2020 vegna heimsfaraldurs. Í fimmtán ár hafa aðstandendur Fossavatnsgöngunnar boðið upp á vinsæl helgarnámskeið í skíðagöngu á Ísafirði og frá 2016 hefur Hótel Ísafjörður jafnframt boðið upp á skíðagöngunámskeið, fyrst kvennaskíðanámskeið, en svo einnig blönduð námskeið. Þegar mest var, 2021, voru allt í hundrað manns skráðir á hvert námskeið og voru allar helgar bókaðar frá lokum janúar fram í mars.

Bobbi á ferðinni – MYND: Fossavatnsgangan

Fólk fer til útlanda frekar en á Ísafjörð

Nú er ljóst að skráning á námskeiðin hefur dalað, bæði á Fossavatnsnámskeiðin og námskeiðin hjá Hótel Ísafirði. Kristbjörn Sigurjónsson, eða Bobbi, sem starfar fyrir Fossavatnsgönguna, segir að aldrei hafi verið jafn dræm skráning á helgarnámskeiðin og nú. Að jafnaði hafi um 40 manns sótt námskeiðin og hátt í hundrað þegar mest var. „Nú fara allir til útlanda. Það kostar að fara í æfingabúðir innanlands og fólk gerir ekki bæði,“ segir hann. Hann telur að ákveðinn vendipunktur hafi orðið eftir heimsfaraldurinn, þegar fólk tók að fara aftur til útlanda. Námskeiðið með gistingu á Hótel Ísafirði og mat kostar 98.500 en 134 þúsund ef er flogið. Námskeiðið er fjórir dagar, frá fimmtudegi til sunnudags. Átta daga ferð hjá Bændaferðum til Seefeld í Týról í Austurríki kostar 324 þúsund. 

Haldið af stað frá hótelinu – MYND: Hólmfríður Vala

Réðu við innlenda samkeppni

Þegar fyrst var boðið upp á helgarnámskeið í skíðagöngu á Ísafirði voru Ísfirðingar þeir einu sem buðu upp á slík námskeið. Með stækkandi hópi iðkenda fjölgaði þeim sem buðu upp á helgarnámskeið, eins og í Fljótum, á Siglufirði og Ólafsfirði sem og á Ströndum. „Við stóðum alveg af okkur samkeppnina,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir sem sér um skíðagöngunámskeið Hótels Ísafjarðar, „þetta var orðinn svo stór markaður.“ Hins vegar virðast þau ekki ráða jafn vel við samkeppnina við útlönd. 

Hólmfríður Vala ásamt þátttakendum á skíðagöngunámskeiði – MYND: Ágúst Atlason

Hefur fleytt hótelinu í gegnum veturinn

Hólmfríður Vala segir að þau hjá Hótel Ísafirði finni mikið fyrir minnkandi aðsókn á námskeiðin. Enn er það svo að megin þorri ferðamanna kemur til Vestfjarða á sumrin og því hafa námskeiðin fleytt hótelinu í gegnum veturinn. „En svo eru líka allir hinir,“ segir Hólmfríður Vala. Þegar mest var var hótelið til dæmis með tíu skíðaþjálfara, það voru rútuferðir og skíðasvæðið naut góðs af. „Þetta skiptir máli,“ segir Hólmfríður Vala. Þrátt fyrir fámennari hópa hefur Hótel Ísafjörður haldið sínu striki. „Við fellum ekki niður námskeið. Við höfum alltaf lagað okkur að veðri, aðstæðum og fjölda,“ segir Hólmfríður Vala. 

Kvöldstemmning eftir góðan skíðadag – MYND: Hólmfríður Vala

Skíðaganga hefur orðið aðgengilegri

Hólmfríður Vala heldur að þrátt fyrir minni eftirspurn eftir helgarnámskeiðum eigi skíðagangan ekki endilega undir högg að sækja. „Auðvitað eru alltaf nokkrir sem leigja sér skíði og eru bara að prófa í eitt skipti en flestir eiga skíði,“ segir Hólmfríður Vala. „Mín tilfinning er sú að megnið af fólkinu sem sækir námskeiðin skíði enn – og að þetta sé ekki endilega bylgja sem gangi yfir en það hefur ýmislegt breyst.“ Hólmfríður Vala segir að skíðagangan hafi verið gerð mun aðgengilegri í Reykjavík en hún var.  Þegar fyrst var boðið upp á skíðagöngunámskeiðin á Ísafirði hafi varla verið hægt að komast í gönguskíðabrautir nema í Bláfjöllum, nú er hins vegar farið að spora úti um allar trissur, á Hólmsheiði, á Rauðavatni, í Mosfellsbæ og Hafnarfirði, sem dæmi. Það hjálpi fólki að stunda íþróttina. 

Fossavatnsganga – MYND: Hólmfríður Vala

Vilja sækja fleiri keppendur til útlanda – en það vanti hótelherbergi

Kristbjörn segir að ágætis skráning sé í Fossavatnsgönguna sjálfa, sem er um miðjan apríl, það séu alltaf um 300 manns sem komi frá útlöndum og að hann búist við öðru eins frá Íslandi. Það hafi þó vissulega orðið breyting á síðan stórir hópar komu frá Ferðafélagi Íslands í tengslum við Landvættirnar, sem Fossavatnsgangan er hluti af, en Ferðafélagið er ekki lengur með þessa hópa. Þegar mest var í Fossavatnsgöngunni tóku í kringum 1.100 manns  þátt.

Kristbjörn telur þolmörk göngunnar  vera um 1.200 manns miðað við núverandi aðstæður og að Fossavatnsgangan myndi gjarnan vilja sækja fleiri keppendur til útlanda enda 150-200 þúsund manns sem ferðist um heiminn til að taka þátt í skíðagöngum víðs vegar um heim það er Worldloppet sem Fossavatnsgangan er hluti af. Hins vegar standi innviðir norðanverðra Vestfjarða í vegi fyrir því að fleiri erlendir þátttakendur komi vestur þar sem það vanti fleiri hótelherbergi með baði – það sé það sem margir erlendir þátttakendur kalli eftir.


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …