London

London

Flokkar: Sjá og gera - Matur og drykkur - Gagnlegt - Hótel


LONDON :
Sjá og gera→
Matur og drykkur→
Gagnlegt→
Hótel→

London er sannkölluð stórborg þar sem möguleikarnir á að gera sér glaðan dag virðast óendanlegir. Það er hægur vandi að heimsækja borgina aftur og aftur án þess að endurtaka sig.
Margt af því sem hæst ber í tónlist, kvikmyndum og tísku á rætur að rekja til London og fótboltinn er hvergi betri. Fólk flykkist því til borgarinnar til að berja augum þá staði sem hafa persónulega merkingu fyrir það, til dæmis gangbraut við Abbey Road eða fótboltaleikvang.


Hverfi borgarinnar hafa hvert sitt sérkenni. Í West End er fjörugt leikhúslíf, í Soho fjölbreytt mannlíf með hommobörum og ýmsum neðanjarðarkúltur á meðan ýmis konar sérverslanir og innflytjendur setja svip sinn á East End. Í City slær hjarta fjármálalífsins og þar er allt það sem sem fólk með dýran smekk girnist. Í Chelsea og Knightbridge eru heimsþekktar verslanir og fótboltaklúbbar á meðan Notting Hill býður upp afslappaða hverfisstemmingu með fjölda skemmtilegra verslana og veitingastaða. Þeir sem vilja komast af malbikinu geta leitað skjóls í Hyde Park í Kensington. Í Westminster og South Bank má  svo finna helstu kennileiti borgarinnar.
Neðanjarðarlestakerfi borgarinnar er mjög gott og auðveldar ferðamönnum lífið. Tveggja hæða strætisvagnar fyrir ferðamenn eru líka góð leið til að skoða sig um og svo er nauðsynlegt að setjast upp í svartan breskan leigubíl einu sinni í hverri ferð.


Þótt veðrið leiki mann grátt er engin ástæða til að örvænta. Bresku pöbbarnir henta einkar vel til að bíða af sér verstu skúrina. Söfn borgarinnar eru einnig í heimsklassa og á mörg þeirra kostar ekkert inn.

Share |