Verslað í rólegheitum

Það er vissulega uppörvandi fyrir okkur sem búum í fámenninu að skella okkur út í mannhafið á Oxford stræti í London. Það getur hins vegar orðið þreytandi til lengdar að ráfa þar um hálf ringlaður í leit að flík eða mat.

Þeir sem vilja anda léttar en engu að síður eiga færi á að skoða í búðir ættu að gefa lítilli götu í Bloomsbury hverfinu tækifæri. Lamb´s Conduit Street heitir hún og er hálfgerð göngugata. Þar má finna sérverslanir, veitingastaði og bari þar sem líklegra er en ekki að eigandinn standi vaktina. Þetta á reyndar ekki við um kaffihúsið Starbucks sem finna má í götunni.

Að sjálfsögðu jafnast úrvalið ekki á við það sem finna má í vöruhúsunum við stóru verslunargöturnar en á móti kemur að stemningin er afslöppuð og öðruvísi og kannski eru meiri líkur á að finna eitthvað í búðahillunum þar sem stenst tímans tönn en við Oxford stræti.

Heimsóknarinnar virði:

Oliver Spencer, númer 62 – Herrafatabúð með klassísku yfirbragði.

Gigala, númer 54 – Spænskur veitingastaður, aðalréttir frá 12 pundum og tapas á 2 til 8 pund.

Folk, númer 49 – Kannski er þetta fatamerki þekktasti íbúinn við götuna.

Synphonic, númer 47 – Plötubúð af gamla skólanum. Fastakúnnar mæta á föstudags eftirmiðdögum með bjór í farteskinu.


Bookmark and Share