9 ráð til að létta farangurinn

Hver kannast ekki við að koma heim að loknu ferðalagi og taka þá upp úr töskunum föt sem legið hafa þar óhreyfð allt fríið. Sjóuðustu ferðalangar hafa sennilega flestir náð góðum tökum á pökkuninni en við hin erum gjörn á að ferðast með of þungar töskur á milli landa. Hér eru níu einföld ráð um hvernig pakka skal á skynsaman hátt:

1. Tæki

Áður en hárþurrkunni og straujárninu er pakkað er gott að kanna hvort þannig búnaður sé til staðar á hótelinu. Eins ættu þeir sem ferðast með fullhlaðinn síma ekki að þurfa að taka hleðslutækið með sér í helgarferðina.

2. Veðrið og dagskráin

Hvernig er veðrið á áfangastað? Weather.com er góð netsíða þar sem finna má veðurspá fyrir flest byggð ból í heiminum. Auðvitað er ekkert öruggt í þessum efnum en afhverju að taka með sér hörjakkaföt ef litlar líkur eru á bongóblíðu?

Það er mikill kostur að þekkja dagskrá ferðarinnar og pakka í samræmi við það. Ef litlar líkur eru á að þú nennir í ræktina á hótelinu er óþarfi að taka íþróttafötin með. Rösklegur göngutúr í nágrenni hótelsins er líka skemmtilegri æfing en hlaup á hlaupabretti.

3. Litir

Með því að pakka aðeins fötum sem passa saman og eru í samskonar lit verður auðveldara að velja fylgihluti sem hægt er að nota alla ferðina. Brúna beltið bíður þá heima ef eingöngu svartir skór eru með í för.

4. Fjöldi

Ef ferðin varir í minna en eina viku er nóg að taka með sér skyrtu eða bol fyrir hvern dag. Það sama gildir um sokka og nærföt. Tvennar buxur eða pils ættu líka að duga fyrir styttri ferðir og tvenn pör af skóm. Húfa og vettlingar eiga líka heima í töskunni ef þannig viðrar.