Bestu nektarstrendur í heimi

Wikimedia commonsÞað finnast sólarstrendur út um allan heim fyrir þá sem frekar vilja sóla sig berir en í baðfötum. Notendur ferðavefsins Tripadvisor hafa valið fimm bestu nektarstrendur heims enda vita þeir að góður undirbúningur getur skipt sköpum þegar ferðast er og á það ekki síður við þegar ferðinni er heitið á nektarströnd. 

Áhugafólk um strandlíf án fata ætti að vera í góðum málum á þessum stöðum samkvæmt Tripadvisor: 

Haulover ströndin í Miami, Bandaríkjunum

Árlega flykkjast meira en milljón manns á þessa fjölskylduvænu strönd sem er í göngufæri við hina þekktu South Beach  sem rómuð er fyrir fjörugt næturlíf.

Wreck ströndin, Vancouver, Kanada

Þetta er stærsta og fyrsta nektarströndin í Kanada.  Landslagið mun vera ákaflega fallegt á þessum slóðum.

Paradísarströndin, Mykonos, Grikklandi 

Eini fulltrúi evrópskra baðstranda á listanum er á grísku partíeyjunni Mykonos. Bikiní- og sundskýluför eru á undanhaldi hér og þeir sem þeim skarta eru stimplaðir sem nýgræðingar í faginu.

Orient ströndin á St. Maarten, Karabíska hafinu 

Ægifögur karabísk strönd með hvítum sandi og fagurbláum sjó. Það er vinsælt að snorkla yfir kóralrifunum þar skammt undan og þeir sem það gera er ráðlagt að spara ekki sólarvörnina, sérstaklega á þá staði sem sólin skín alla jafna ekki á.

Svarta ströndin, San Diego, Bandaríkjunum 

Hér er löng hefð fyrir berrössuðum baðgestum og meira að segja brimbrettafólkið sem þangað sækir sleppir því að klæða sig.

Bookmark and Share