Lofa fallegri flugfreyjum

Rússneska flugfélagið Aeroflot hefur ekki verið hátt skrifað utan heimalandsins. Slæmt orð hefur farið af flugflota félagsins og þjónustulund starfsmanna þess sögð takmörkuð. Hversu verðskulduð þessi gagnrýni er skal ósagt látið en hún plagar alla vega stjórnendur félagsins. Þeir réðu því til starfa erlenda ímyndarsérfræðinga til að rétta af orðspor þess. Í framhaldinu tilkynnti forstjóri Aeroflot að gerðir hafa verið samningar um endurnýjun flugflotans við Boeing og Airbus. Það sem vakti hins vegar meiri athygli var ný stefna félagsins í starfsmannamálum því hér eftir verða tekin upp mjög ströng skilyrði hvað varðar útlit flugfreyja.

Eiga að líkjast fyrirsætum

Haft er eftir forstjóranum að hér eftir verði aðeins ráðnar flugfreyjur sem þykja „stórglæsilegar“. Áhafnir félagsins fá líka nýja einkennisbúninga enda hafi sálfræðingar fellt þann dóm að núverandi búningar séu beinlínis fráhrindandi. Forstjórinn segist vilja taka breska flugfélagið Virgin sér til fyrirmyndar í þessum málum enda séu rauðir búningar þess klæðilegir og flugfreyjurnar líkist atvinnufyrirsætum. Núverandi búningar Aeroflot eru bláir og appelsínugulir.

Þessi nýja starfsmannastefna þykir svipa til markaðssetningar bandarískra flugfélaga á sjöunda áratugnum þar sem flugfreyjur voru kyntákn og þurftu, líkt og fegurðardrottningar, að vera ókvæntar. Ekki fylgir sögunni hvaða kröfur eru gerðar til útlits flugþjóna Aeroflot, ef þeir eru þá einhverjir.

 

Bookmark and Share