Mýrin hefur margt að bjóða

Mýrin var áður eitt fátækasta hverfi Parísar. Í dag er það hins vegar meðal líflegustu og fallegustu hluta borgarinnar, þar sem strangtrúaðir gyðingar og samkynhneigðir eru á heimavelli, og ferðamenn rölta milli kaffihúsa og verslana.

Mýrin nær yfir þriðja og fjórða borgarhluta Parísar. Hverfinu tilheyra margar glæsilegar byggingar, enda hélt borgarastéttin hér til áður en Versalir urðu heimavöllur hirðarinnar og fylgisveina hennar. Gyðingar urðu fjölmennir í hverfinu á seinni hluta nítjándu aldar og það varð því illa úti eftir að Þjóðverjar náðu borginni á sitt vald í seinni heimstyrjöldinni. Áratugina eftir stríðslok var Mýrin í vanda en hefur sótt í sig veðrið jafnt og þétt síðan á tíunda áratuginum og verið meðal vinsælustu áningastaða ferðamanna í París.

Góð söfn

Við CarnavaletsafniðHluti af aðdráttarafli Mýrarinnar er söfnin í hverfinu sem mörg hver eru í höllunum sem fínu íbúar hverfisins byggðu fyrr á öldum. Þeirra glæsilegast er sennilega Carnavaletsafnið þar sem saga Parísar er rakin á mjög athyglisverðan hátt.  Það er frítt inn á Carnavalet og það sama gildir um safn í fyrrum heimkynnum rithöfundarins Victors Hugo. Það þarf hins vegar að borga fyrir aðgang að safni um snilligáfu mannskeppnunnar, Musée des arts et métiers. Sömu sögu er að segja um ljósmyndasýningarnar á La Maison Européenne de la Photographie, Pompidousafnið og Gyðingasafnið. Opnunartímar safnanna eru mismundandi og aðgangseyrir frá fimm til tólf evrum, dýrast á Pompideu. Safn tileinkað Pablo Picasso er einnig í Mýrinni, en það er lokað sökum viðhalds.

Í essinu sínu á sunnudögum

Það er löng hefð fyrir því að verslanir og veitingastaðir í Mýrinni séu opnir á sunnudögum, öfugt við það sem gerist og gengur annars staðar í borginni. Verslunargatan Rue des Francs-Bourgeois er til að mynda mjög lífleg á sunnudögum. Á móti kemur að margir gyðingar í stétt verslunar- og veitingamanna halda laugardaginn heilagan og þá er rólegri blær yfir hverfinu.

Þar sem bitinn er ódýr

Túristi hefur tekið saman lista yfir nokkra góða staði þar sem hægt er að fá magafylli fyrir lítið á milli þess sem verslanir og söfn hverfisins eru skoðuð. Enda er það mikil pína að ganga um Parísarborg með tóman maga, eins og merkir menn hafa bent á.

Rue de Bretagne – Sælkerabúðir og bakarí eru áberandi í þessari götu. Hér er hægt að kaupa tilbúna rétti, eða setja sjálfur saman nestispakka. Nestið er kjörið að borða við Place des Vosges, eitt glæsilegasta torg borgarinnar. Það tekur um það bil tíu mínútur að rölta þangað frá Rue de Bretagne.

Rue des Rosiers – Gatan er miðpunktur gyðingahverfisins og hebresktákn áberandi á framhliðum verslana og veitingastaða. Hér halda líka til heimsþekktir fatahönnuðir og veitingamenn sem aldrei hafa eldað Kosher. Besta Falafel í Evrópu, að mati New York Times, kostar  fjórar evrur á L’AS du Falafel sem er í húsi númer 34.

Inngangur Marché des Enfants Rouges matarmarkaðarinsMarché des Enfants Rouges – Matarmarkaður, þar sem hægt er að kaupa ferskt hráefni og tilbúna rétti, frá öllum heimsins hornum. Nóg er af bekkjum og borðum fyrir þá sem vilja borða á staðnum. Skoðið kortið vel áður en lagt er í af stað, enda er auðvelt að villast af leið. Þar er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 8 til 13 og kl. 16 til 19:30 (lokar klukkan tvö á sunnudögum).

Breizh Café ( Rue Vieille du Temple 109) sérhæfir sig í frönskum pönnukökum (Crepes) með allskyns áleggi. Réttirnir kosta fimm til tíu evrur.

Þeir sem vilja borða á betri stöðum en hér eru tilteknir geta kynnt sér vegvísi Túrista um París, eða ráðleggingar Conde Nast Traveller.

Frekari upplýsingar um hvað Mýrin hefur uppá að bjóða má finna á ParisMarais.com.

SMELLTU HÉR TIL AÐ FINNA ÓDÝRUSTU GISTINGUNA Í PARÍS

Bookmark and Share

Tengt efni:

Verðið lækkar á frönskum veitingahúsum

Vegvísir – París