Íslenskum túristum stórfækkar í Köben

Vægi íslenskra ferðamanna í útlöndum er hvergi meira en í Danmörku. Árið 2007 voru tveir af hverjum hundrað erlendum ferðamönnum í Kaupmannahöfn Íslendingar. Það sem af er ári er hlutfallið aðeins 0,6 prósent og gistinóttunum hefur fækkað um 32 þúsund, borið saman við sama tímabil árið 2007. Þetta sést þegar skoðaðar eru tölur um fjölda gistinátta útlendinga í borginni á vef Danska tölfræðibankans. Ef fram fer sem horfir mun gistinóttum okkar í gömlu höfuðborginni fækka um sextíu og eitt þúsund í ár borið saman við árið 2007. En það ár náði ferðagleðin hámarki.

Margt dýrt í Danmörku

Danmörk er eitt dýrasta land í heimi fyrir ferðamenn. Það er því eðlilegt að fólk horfi til annarra staða þegar utanlandsferðir eru skipulagðar um þessar mundir. En þrátt fyrir dýrtíðina í Kaupmannahöfn er þar fjölmargt á boðstólum sem er ódýrt eða kostar ekki neitt. Nokkur dæmi eru á vegvísi okkar um borgina og á næstu vikum munum við birta fleiri ábendingar um hvernig njóta megi lífsins í Kaupmannahöfn án þess að kosta of miklu til.

Hvaða hótel í Kaupmannahöfn er ódýr?

Það eru ekki bara Íslendingar sem halda sig heima í ár. Heildarfjöldi ferðamanna í Danmörku hefur dregist saman í ár og hótelin bjóða því mörg hver lágt verð á gistingu um þessar mundir.

Túristi fór á stúfana og hér eru nokkur dæmi um ódýra gistingu í Kaupmannahöfn:

Undir 500 danskar krónur á nótt:

Wake up – Splunkunýtt hótel við aðallestarstöðina. Ódýrustu tveggja manna herbergin kosta aðeins 415 danskar. Verðið hækkar ef valið er herbergi með útsýni. Wake up er líklegast ódýrasta hótelgistingin sem hægt er að fá í miðborg Kaupmannahafnar um þessar mundir. Staðsetningin er fín og auðvelt að taka lestina (ekki Metró) frá flugvellinum niður á aðallestarstöð (Hovedbanegården).

Zleep hotel – Ef staðsetningin skiptir ekki höfuðmáli þá er Zleep hótelið mjög fínn kostur. Hótelið er nálægt Tårnby lestarstöðinni sem er fyrsta stöðin sem lestin frá Kastrup, á leið til Kaupmannahafnar, stoppar við. Hér kostar ódýrasta herbergið 299 danskar. Öll herbergi eru með baðherbergi.

Danhostel Amager – Þeir sem eru til í að deila baðherbergi með öðrum geta fengið mjög ódýra gistingu á þessu gistiheimili út á Amager. Ódýrasta tveggja manna herbergið er hægt að bóka með því að smella hér. Það kostar 320 danskar krónur en við það bætast 80 krónur fyrir sængurföt og meðlimakort sem gestir verða að kaupa. Auðvelt er að taka metró í bæinn. Danhostel rekur fleiri gistiheimili í borginni og er með nokkur góð tilboð fyrir fjölskyldur.

Hotel Nebo, Absalon Annex og Hotel Løven eru ódýr gistiheimili í nágrenni við aðallestarstöðina. Ódýrust verðin sem eru í boði eiga oftast við herbergi með engri baðaðstöðu.

Dansk Bed&Breakfast – hér er langur listi yfir íbúðir, gistiheimili og heimagistingar í Danmörku. Síðastnefndi möguleikinn ódýrastur (300-400 kr) en hér eru líka íbúðir sem eru leigðar út á 600 kr nóttina.


Frá 500 til 1000 danskar á nótt

Hotel Rye – Vinalegt hótel sem nýlega var útnefnt eitt af bestu ódýru hótelum heims af dagblaðinu The Times. Utan frá séð lætur þetta litla hótel á Austurbrú lítið yfir sér og innandyra er heimilisleg stemming. Nóttin á tveggja manna herbergi kostar 800 danskar krónur með morgunmat. Stutt er í strætisvagn sem keyrir beinustu leið niður í bæ. En einnig er gaman að verja tímanum á Austurbrú því hótelið er staðsett rétt við Söerne og Fælledparken, tvö af vinsælustu útivistarsvæðum borgarbúa. Einnig er stutt í verslanir, kaffihús og veitingastaði.

Sct Thomas – Lítið hótel í Frederiksberg, nálægt Vesturbrú. Herbergin eru frekar lítil og enginn lúxus í boði. Ódýrasta tveggja manna herbergið kostar 695 danskar. Hótelið stendur við Frederiksberg Allé, eina fallegustu götu borgarinnar og þaðan er stutt í Frederiksberg garðinn. Dýragarðurinn er einnig nálægt og verslunargöturnar Gammel Kongevej og Vesterbrogade. Værnerdamsvej er lítil gata handan við hornið. Hún er ein huggulegasta gata borgarinnar með kaffihúsum, sælkerabúðum, verslunum og veitingastöðum. Það tekur um það bil 20 mínútur að ganga niður á Ráðhústorg.

Scandic – Stærsta hótelkeðja Norðurlanda á nokkur hótel í Kaupmannahöfn. Ef gist er í þrjár nætur er síðasta nóttin frí. Þá kostar tveggja manna herbergi 800 danskar krónur á nótt með morgunmat. Ódýrasta Scandic hótelið er reyndar aðeins fyrir utan miðborgina og þurfa gestir því að taka strætó í bæinn. Barnafjölskyldur eru vel í sveit settar hjá Scandic því það er ókeypis fyrir 13 ára og yngri.

First hotels – Þessi hótelkeðja býður uppá tveggja manna herbergi með morgunmat á 795 danskar. Eitt af hótelunum er vel staðsett á Vesterbrogade, í námunda við aðallestarstöðina.

Arp Hansen – Tíu hótel í Kaupmannahöfn eru í eigu þessarar keðju. Þeir sem gista í þrjár nætur (þ.m.t. sunnudagsnótt) fá bestu verðin, fjögurra stjörnu hótel undir þúsund dönskum krónum á nótt. 

Choice hotelsÓdýrasta hótelið sem þessi keðja býður uppá er við lestarstöðina Österport. Fín staðsetning og auðvelt að komast þangað með lestinni frá flugvellinum. Tveggja manna herbergi kostar 695 dkr.

Á heimasíðu Ferðamálaráðs Danmerkur er fín hótelbókunarsíða þar sem hægt er að leita eftir verðum hjá mörgum hótelum í einu. Einnig er þar að finna upplýsingar um hótelíbúðir.

Í næstu viku heldur Túristi áfram að benda á ódýra kosti fyrir ferðamenn í Kaupmannahöfn.


Bookmark and Share