Ódýrt í hádeginu við Strikið

Verðin á matseðlum veitingastaðanna í Kaupmannahöfn hafa hækkað töluvert í íslenskum krónum talið. Þó finnast þar ennþá staðir þar sem maturinn er verðlagður þannig að ferðamenn, með tekjur í íslenskum krónum, geta vel við unað. Hér er listi yfir nokkra  matsölustaði í nágrenni við Strikið þar sem óhætt er að taka tilboðum um ódýran hádegismat.

 

Hamborgarar og steikur

Sporvejen – Við Grábræðratorg 17 er lítill hamborgarastaður sem er innréttaður eins og gamaldags sporvagn. Á matseðlinum er fjölbreytt úrval af hamborgurum og kostar sá ódýrasti fimmtíu og tvær danskar krónur (47 krónur ef valið er kjúklingakjöt). Ommeletturnar eru líka freistandi sem og morgunmaturinn sem samanstendur af beikoni, eggjum og ristuðu rúgbrauði (kostar 59 dkr). Þeim sem ætla að spara rækilega og fá sér kranavatn með matnum skal bent á að fyrir vatnsglasið eru rukkaðar níu danskar krónur líkt og algengt er á dönskum veitingastöðum og kaffihúsum.

Halifax – Hamborgarar eru í aðalhlutverki á Halifax við Larsbjørnsstræde 9. Í hádeginu kostar borgari hússins sextíu og níu danskar. Reikningurinn hækkar um helming ef gos eða franskar eru pantaðar með. 

Jensen’s Bøfhus – Þessi steikarhús er að finna vítt og breitt í Danmörku. Þar á meðal við Grábræðatorg í miðbæ Kaupmannahafnar. Í hádeginu geta gestir valið á milli hakkebøf, nautasteikur og kjúklingarétts sem kosta 49 danskar með sósu og frönskum.

Samlokur

Af samloku- og beyglustöðunum er nóg af í Kaupmannahöfn. Í götunum Larsbjørnsstræde og Studiestræde, sem liggja við hvora aðra, eru nokkrir ódýrir skyndibitastaðir þar sem hægt er að fá samlokur á 35 til 45 krónur. Feinsmækker er einn af þeim en hann er til húsa á Larsbjørnsstræde 7. Bakarinn við Sankt Peders Stræde 29 (gatan liggur samsíða Studiestræde) er einnig ódýr heim að sækja. Þar er sætabrauð á tilboði á hverjum degi og samlokurnar kosta 30 til 40 krónur. Hægt er að tylla sér niður á meðan borðað er.

Smurbrauð

Dönsk matarmenning nær hæstu hæðum á smurbrauðsstofunum í hádeginu. Það er er því ekki annað hægt en að benda á tvo aldargamla staði þar sem ódýrustu réttirnir kosta rúmar fjörtíu danskar. Þeir sem vilja eitthvað annað en síld borga hins vegar aðeins meira. 

Kanal Cafeen – Heit lifrarkæfa með beikoni og sveppum kostar 52 danskar og roastbeef með spæleggi 56 krónur. Ekki þarf að borga aukalega fyrir að sitja inni á einum elsta veitingastað Kaupmannahafnar og fá matarkúltúr Dana beint í æð.

Café Petersborg – Saga staðarins nær aftur til 1746 og því er merkilegt að setjast þar niður og smakka á réttunum sem hafa verið á matseðlunum um mjög langt skeið. Kjötbollur með súrum gúrkum og rauðkáli kosta 54 danskar og nóg er af góðgæti á matseðlinum.

Meira: Matur og drykkur í Kaupmannahöfn

Bookmark and Share