Samfélagsmiðlar

Ódýrt í hádeginu við Strikið

Verðin á matseðlum veitingastaðanna í Kaupmannahöfn hafa hækkað töluvert í íslenskum krónum talið. Þó finnast þar ennþá staðir þar sem maturinn er verðlagður þannig að ferðamenn, með tekjur í íslenskum krónum, geta vel við unað. Hér er listi yfir nokkra  matsölustaði í nágrenni við Strikið þar sem óhætt er að taka tilboðum um ódýran hádegismat.

 

Hamborgarar og steikur

Sporvejen – Við Grábræðratorg 17 er lítill hamborgarastaður sem er innréttaður eins og gamaldags sporvagn. Á matseðlinum er fjölbreytt úrval af hamborgurum og kostar sá ódýrasti fimmtíu og tvær danskar krónur (47 krónur ef valið er kjúklingakjöt). Ommeletturnar eru líka freistandi sem og morgunmaturinn sem samanstendur af beikoni, eggjum og ristuðu rúgbrauði (kostar 59 dkr). Þeim sem ætla að spara rækilega og fá sér kranavatn með matnum skal bent á að fyrir vatnsglasið eru rukkaðar níu danskar krónur líkt og algengt er á dönskum veitingastöðum og kaffihúsum.

Halifax – Hamborgarar eru í aðalhlutverki á Halifax við Larsbjørnsstræde 9. Í hádeginu kostar borgari hússins sextíu og níu danskar. Reikningurinn hækkar um helming ef gos eða franskar eru pantaðar með. 

Jensen’s Bøfhus – Þessi steikarhús er að finna vítt og breitt í Danmörku. Þar á meðal við Grábræðatorg í miðbæ Kaupmannahafnar. Í hádeginu geta gestir valið á milli hakkebøf, nautasteikur og kjúklingarétts sem kosta 49 danskar með sósu og frönskum.

Samlokur

Af samloku- og beyglustöðunum er nóg af í Kaupmannahöfn. Í götunum Larsbjørnsstræde og Studiestræde, sem liggja við hvora aðra, eru nokkrir ódýrir skyndibitastaðir þar sem hægt er að fá samlokur á 35 til 45 krónur. Feinsmækker er einn af þeim en hann er til húsa á Larsbjørnsstræde 7. Bakarinn við Sankt Peders Stræde 29 (gatan liggur samsíða Studiestræde) er einnig ódýr heim að sækja. Þar er sætabrauð á tilboði á hverjum degi og samlokurnar kosta 30 til 40 krónur. Hægt er að tylla sér niður á meðan borðað er.

Smurbrauð

Dönsk matarmenning nær hæstu hæðum á smurbrauðsstofunum í hádeginu. Það er er því ekki annað hægt en að benda á tvo aldargamla staði þar sem ódýrustu réttirnir kosta rúmar fjörtíu danskar. Þeir sem vilja eitthvað annað en síld borga hins vegar aðeins meira. 

Kanal Cafeen – Heit lifrarkæfa með beikoni og sveppum kostar 52 danskar og roastbeef með spæleggi 56 krónur. Ekki þarf að borga aukalega fyrir að sitja inni á einum elsta veitingastað Kaupmannahafnar og fá matarkúltúr Dana beint í æð.

Café Petersborg – Saga staðarins nær aftur til 1746 og því er merkilegt að setjast þar niður og smakka á réttunum sem hafa verið á matseðlunum um mjög langt skeið. Kjötbollur með súrum gúrkum og rauðkáli kosta 54 danskar og nóg er af góðgæti á matseðlinum.

Meira: Matur og drykkur í Kaupmannahöfn

Bookmark and Share

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …