Tívolí saknar erlendra ferðamanna

Tívolí í Kaupmannahöfn
Ferðalög innanlands njóta aukinna vinsælda í fleiri löndum en Íslandi. Á hinum Norðurlöndnunum er það sama upp á teningnum. Þetta breytta ferðamynstur og lágt gengi norsku, sænsku og íslensku krónunnar hefur leikið danska ferðamannaiðnaðinn grátt í ár. Tívolí í Kaupmannahöfn er þar engin undantekning og haft er eftir talsmanni þess í frétt Ritzau að gengi sænsku krónunnar hafi haft slæm áhrif á aðsóknina að skemmtigarðinum í sumar og sænskum gestum hafi fækkað til muna. Mikil fjölgun heimamanna sem greiddu aðgang að Tívolí vegur hins vegar upp á móti fækkun útlendinga. Heildargestafjöldi í Tívolí í sumar var sá sami og í fyrra, eða 2,8 milljónir.


Danir fjölmenna til Svíþjóðar

Á sama tíma og Svíar halda sig fjarri Danmörku þá fjölmenna Danir yfir Eyrarsundið. Þar fá þeir mun meira fyrir peninginn en heima hjá sér. Verslunarmenn í Malmö hafa til dæmis notið góðs af þessu þar sem kaupglaðir Kaupmannahafnarbúar fylla allar lestir um helgar yfir til Svíþjóðar.

Sænska ferðamálaráðið vill hins vegar ekki aðeins þakka lágu gengi krónunnar þessar auknu heimsóknir danskra ferðamanna yfir til Svíþjóðar heldur einnig vel heppnuðu markaðsátaki undanfarin ár.

Meira: Íslenskum túristum stórfækkar í Kaupmannahöfn.

 

Bookmark and Share