Bestu hótelsundlaugar í heimi

Það getur verið mikill kostur að búa á hóteli með sundlaug. Sérstaklega þegar heitt er í veðri. Ferðatímaritið Budget Travel birti nýverið lista yfir þær hótelsundlaugar sem skara fram úr í heiminum. Eins og gefur að skilja er gistingin dýr á öllum þessum hótelum.


Park Hyatt, Tokyo, Japan

Þetta glæsilega hótel í höfuðborg Japans varð heimsfrægt í kjölfar vinsælda myndarinnar Lost in translation. Hótelsundlaugin kemur þar við sögu en báðar aðalpersónur myndarinnar drepa tímann í Tókýó með því að dýfa sér útí. En það er ekki þess vegna sem sundlaugin kemst á lista Budget Travel heldur vegna útsýnisins. Laugin er á fertugustu og sjöundu hæð og frá bakkanum er útsýnið yfir borgina stórbrotið að degi til og ekki síðra þegar skyggja tekur enda á ljósadýrðin í Tókýó fáar sína líka.

San Alfonso Del Mar, Algarrobo, Chile

Það er aðeins á færi bestu sundmanna að synda fleiri en tvær ferðir í þessari laug. Það er nefnilega einn kílómetri milli bakkanna og hún mun vera stærst sinnar tegundar samkvæmt Heimsmetabók Guinness. Boðið er uppá bátsferðir á þessu sérstaka mannvirki sem fyllt er með upphituðum sjó.


Hótel Caruso Belvedere, Ravello, Ítalíu

Útsýnið yfir ægifagra Amalfi strandlengjuna kemur þessari sundlaug á listann. Rúsínan í pylsuendanum eru rómverskar rústir sem standa við sundlaugarbakkann.

TENGT: Kaffið er betra í Róm en í Mílanó


Umaid Bhawan Palace, Jodhpur, Indlandi

Í þessari fyrrum konungshöll deila hótelgestir sundaðstöðunni með prinsinum af Jodhpur. Prinsinn tekur víst ósjaldan sundsprett á milli kertanna og rósarblaðanna sem fljóta á yfirborðinu. Af þessu skrauti að dæma er sennilega ekki gert ráð fyrir miklum buslugangi í lauginni.


Viceroy, Miami, Bandaríkjunum

Í Miami er úrvalið af íburðarmiklum sundlaugum mikið en Viceroy slær allt annað út að mati Budget Travel. Þar er meðal annars að finna sundlaug á stærð við amerískan fótboltavöll og áttatíu manna nuddpotti.

InterContinental, Hong Kong

Hér eyða sundgestir hótelsins tímanum með höfuðið á bólakafi. Ástæðan er tónlistin sem heyrist aðeins þegar kafað er undir yfirborðið. Á hótelinu eru þrjár sundlaugar, tvær heitar og ein köld.


Golden Nugget, Las Vegas, Bandaríkjunum

Hér nær ruglið í Las Vegas sennilega hæstu hæðum því í miðri sundlauginni, við Golden Nugget hótelið, er glerbúr fullt af hákörlum. Sundlaugargestir geta því komist eins nálægt þessum skepnum og hægt er án þess að kveðja þennan heim.


Quincy Hótel, Singapúr

Hótelsundlaug á tólfu hæð í frammúrstefnulegri byggingu. Gott útsýni eins og gefur að skilja og á kvöldin er vatnið þannig upplýst að laugin glóir og sést langar leiðir.


Al Bustan Palace InterContinental Muscat, Muttrah, Óman

Það segir töluvert um íburðin á þessu hóteli að við sundlaugina eru sérstakir einkaþjónar sem aðeins sinna þörfum sundlaugargesta. Sundlaugin er gríðarstór og í henni eru nokkrar litlar eyjar skreyttar pálmatrjám.


Anantara Koh Samui Resort & Spa, Samui, Taílandi

Sundlaug við Anantara Koh virðist engan endi taka.  Mynd: Samui AnantaraSundlaugargestir hafa það á tilfinningunni að þeir geti synt endalaust áfram því hafið virðist taka við þar sem sundlauginni sleppir. Bakki laugarinnar er svo skreyttur með risavöxnum styttum.

 

 

 

 MEIRA: Skíðaferð til útlanda á gamla genginu

Bookmark and Share