Bestu krárnar í London

Mynd: Visit LondonFerðalag til Bretlands verður varla fullkomnað nema með heimsókn á barinn. Bæði til að upplifa stemninguna og bragða á veitingunum. Ný bók auðveldar ókunnugum að finna bestu krárnar í borginni.

Hinn sænski Kirster Larsson tók upp á því á ferðalögum sínum til London að senda vinnufélögunum heima í Lundi lýsingar af þeim börum sem honum þótti mest til koma í höfuðborg Bretlands. Mörgum heimsóknum síðar átti hann efni í heila bók. Bókin heitir einfaldlega London-En Pubguide og kom út í haust.

Í viðtali við Sænska dagblaðið listar Larsson upp þá tíu bari sem honum þykir skara framúr í London. Hann tekur fram að gæði bjórsins ræður ekki hvar á listanum krárnar lenda heldur stemningin sem þar ríkir og saga staðanna.

Tíu bestu krárnar:

The Windsor Castle. ”Gamall, slitinn, dimmur með tréinnréttingum og enginn mjúkur sofi innan seilingar“. 114 Campden Hill Road, Kensington.

The Prince Alfred. ”Svokallaðir snobbskermar skilja að starfsfólkið og viðskiptavinina. Stórkostlegir gluggar”. 2 A Formosa Street, Maida Vale.

The Warrington Hotel. ”Stórfenglegar art nouveau innréttingar með upplýstum kúplum”. 93 Warrington Crescent, Maida Vale.

The Princess Louise. ”Mjög fallegt loft, útskornir speglar og trégólf þegar ég var þar síðast. En staðurinn var nýlega gerður upp. Herrasalernið er mjög sérstakt með grindum á gólfinu”. 208 High Holborn, Smithfield.

Ye Olde Mitre Tavern. ”Einn best faldi barinn í borginni.” Ely Court, Ely Place, Smithfield.

The Dove. ”Minnsti barinn í Englandi að sögn Heimsmetabókar Guinness. Alvöru fljótarpöbb sem liggur við Thames”. 19 Upper Mall, Hammersmith.

Argyll Arms. ”Við Oxford neðanjarðarlestarstöðina. Þar eru þil milli borða, speglar og steindir gluggar og allt heila klabbið. Vel staðsettur” 18 Argyll Street, Oxford Street.

The Red Lion. ”Eins og að ganga inn í speglasala. Einn minnsti barinn í London”. 2 Duke of York Street, S:t James’s.

The Blackfriars. ”Vel staðsettur við Fleet Street. Sérstakur að því leyti að hann er klæddur með marmara að innan”. 174, Queen Victoria Street, Fleet Street.

The Mayflower. ”Mjög vel varðveittur bar.” 117 Rotherhithe Street, Bermondsey.


Að sögn Larssons er þjórfé algjörlega óþarft á breskum börum. Þetta ráð getum við Íslendingar tekið sem gilt, alla vega rétt á meðan gengið er eins og það er.

MEIRA: Ódýrustu hótelin í Bretlandi

 

Bookmark and Share