Klósettkort fyrir ferðamenn

Allt það vatn sem um Feneyjar flýtur virðist hafa þvaglosandi áhrif á ferðafólk. Alla vega finnst yfirvöldum þar í borg það orðið mikið vandamál hversu oft gestir borgarinnar kasta af sér vatni í síkin eða þröng húsasund. Til að ráða bót á þessum vanda verða ferðamönnum hér eftir boðin til sölu kort sem veita aðgang að öllum opinberum salernum í borginni. Er það von þeirra að fleiri geri sér ferð á náðhús í framhaldinu. Dagskort á kamra borgarinnar kostar um 550 íslenskar krónur og handhafar þess geta farið tvisvar sinnum á klósettið yfir daginn án þess að borga aukalega. Stök ferð kostar hins vegar um 350 krónur. Feneyjarbúar borga aðeins fimmtíu krónur fyrir ferðina. Vikukort kostar rúmar sextán hundruð íslenskar. Samkvæmt ferðasíðunni Rejseliv.dk gilda þessi verð aðeins þegar ferðamannastraumurinn til borgarinnar er í hámarki. Klósettkortin eru seld á upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn. Ekki er víst að íslenskum ferðamönnum í Feneyjum þyki þessi verð ásættanleg. Það er líklega skynsamlegra að eyða peningnum í staðinn í veitingar á bar eða kaffihúsi og geta þá nýtt sér salernisaðstöðuna þar.

Fyrr á þessu ári voru viðraðar hugmyndir þess efnis að aðeins ferðamenn sem gista á hótelum borgarinnar mættu skoða sig þar um. Ástæðan fyrir þessu er sú að Feneyjar geta varla með góðu móti tekið á móti öllum þeim gestum sem til hennar koma á hverju ári. Þessi byltingarkennda hugmynd hefur hins vegar ekki ekki ennþá verið samþykkt.

MEIRA: Bestu hótelsundlaugar í heimi

Bookmark and Share