Skíðaferð til útlanda á gamla genginu

Skíðaáhugafólk sem kvíðir snjóleysinu hér heima og þykir ferðalag í Alpana of dýrt ætti að horfa til Póllands. Skíðasvæðin í Karkonosze fjöllunum, á landamærum Póllands og Tékklands, eru heimavöllur margra atvinnumanna í skíðaíþróttum og þar hefur átt sér stað mikil uppbygging síðustu ár. Núna er rétti tíminn til að kanna aðstæður á þessu svæði enda er margfalt ódýrara að skíða í pólsku og tékknesku brekkunum en þeim í Mið-Evrópu.

Ódýr lyftukort
Hæsta fjallið í Karkonsosze fjöllunum er Sniezka (1602m) og í hlíðum þess er að jafnaði snjór hundrað og tuttugu daga á ári. Norðurhlutinn, sem tilheyri Póllandi, er snjóþyngri og þar er þekktasta skíðasvæðið Szklarska Poreba. Fyrstu snjókornin falla í nóvember og vertíðin varir til loka aprílmánaðar.

Lyftukort sem gildir í fimm daga kostar innan við fimmtán þúsund íslenskar krónur. Það er helmingi ódýrara en lyftukort í Madonna Di Campiglio. En hafa skal í huga að aðbúnaðurinn í Póllandi jafnast ekki alltaf á við það besta í Ölpunum. Hótelin eru t.a.m. langflest tveggja til þriggja stjörnu og veitingastaðirnir ekki eins góðir. Gistingin er aftur á móti í ódýrari kantinum og kostar nótt í tveggja manna herbergi tíu til fimmtán þúsund krónur, sjá nánar hér.
Ferðamannaiðnaðurinn í kringum skíðasvæðið er í blóma og ágætis úrval af veitingastöðum, verslunum, börum og næturklúbbum. Verðlagið er líka hagstætt í Póllandi og það er því líklegra að slæmt gengi íslensku krónunnar gleymist í fríi þar en á Alpasvæðinu.

Stutt frá Berlín og Prag
Szklarska Poreba er í hæfilegri akstursfjarlægð frá Berlín og Prag. Svæðið liggur því betur við en tvö þekktustu skíðasvæði Pólverja, Szczyrk og Zakopane. Það tekur um þrjár og hálfan tíma að keyra frá höfuðborg Þýskalands en rúma tvo tíma frá Prag. Iceland Express flýgur allt árið til Berlínar og frá Kaupmannahöfn og London er hægt að finna ódýrt flug til Prag.

Þeir sem eru tilbúnir að leggja á sig örlítið flóknara ferðalag til að fá tækifæri til að renna sér í Szczyrk eða Zakopane geta flogið með Iceland Express til Varsjár og tekið lestina þaðan til Kráká morgunin eftir. En skíðasvæðin eru rétt sunnan af Kráká. Lestarmiðinn kostar um 10.000 krónur báðar leiðir.

Það skíðafólk sem er tilbúið til að leggja á sig smá vinnu við skipulagningu ferðar í pólsku fjöllin í vetur mun standa uppi með töluvert ódýrari skíðaferð en er í boði í Ölpunum.

Meira: Ódýr hádegismatur við Strikið

Bookmark and Share