Atvinnulausir leggjast í ferðalög

Stór hluti atvinnulausra í hinum vestræna heimi er ungt fólk. Þessi hópur leggur nú land undir fót í auknum mæli og nýtir sér þann tilboðaham sem ferðageirinn er í. Það kostar um tuttugu til þrjátíu prósent minna að vera túristi núna en fyrir ári síðan. En það á reyndar ekki við um okkur Íslendinga.

Á ferðasýningunni World travel market, sem nú stendur yfir í London, velta sérfræðingar í ferðamálum fyrir sér nýjustu straumum og stefnum. Einna mesta athygli hafa fengið rannsóknir sem sýna fram á mikla ferðagleði meðal ungs fólks sem er atvinnulaust. Þessi hópur er samansettur af fólki yngra en 35 ára sem er einhleypt og skuldar lítið. Það hefur ekki keypt sér íbúðarhúsnæði síðustu ár og er því sveigjanlegt og margir hafa einnig fengið greidda ágætis summu við starfslok og hafa því peninga á milli handanna. Hugtakið „Funemployment“ notað til að lýsa þessum hópi fólks sem getur leyft sér að vera án tekna í töluverðan tíma en samt notið lífsins.

Ferðalög til framandi staða heilla þetta fólk frekar en pakkaferðir á vinsæla ferðamannastaði samkvæmt Euromonitor International, fyrirtækinu sem stendur að baki rannsóknunum.

Fyrir atvinnulausa Íslendinga eru löng ferðalög til útlanda því miður ekki eins vænlegur kostur vegna ástandsins á krónunni.

NÝTT EFNI: Púðursnjór í norskum skíðabrekkum 

Bookmark and Share