Norðmenn eigna sér norðurljósin

Heimsbyggðin skal ekki lengur vera í vafa um hvar hægt er að sjá norðurljós. Norðmenn telja að allir geti sæst á að þeir eigni sér norðurljósin og noti þau til að markaðssetja landið fyrir ferðamönnum. Í viðtali við Aftenposten í Noregi segir Per Arne Tuftin, forstöðumaður ferðamálaráðs landsins, það hafa verið mikil mistök að leyfa Finnum að stela jólasveininum á sínum tíma. Þess háttar þjófnaður verði ekki látinn endurtaka sig. Þar af leiðandi hafa Norðmenn hrundið af stað markaðsátaki á þessu svokallaða norska fyrirbæri, sem norðurljósin eru hér með orðin. Sérstök heimasíða var sett í loftið af þessu tilefni þar sem fólk getur leikið sér að ljósunum og skoðað fallegar myndir af þeim dansandi yfir norskum fjörðum.

Tuftin segir að aðeins Alaska og Kanada geti boðið upp á álíka falleg norðurljós og þau sem sjáist frá norðurhluta Noregs. Hann minnist ekki einu orði á Ísland í viðtalinu og ættu kollegar hans hjá Ferðamálaráði að bregðast fljótt við svo Norðmönnum takist ekki ætlunarverk sitt. Mikið er í húfi því fram kemur í frétt Aftenposten að mikil eftirspurn sé eftir ferðum til norðurhluta landsins og þá sérstaklega í Bretlandi.

MEIRA: Vinsælir jólamarkaðir í Evrópu

 

 

Bookmark and Share