Gott kaffi í Gautaborg

Eigendur kaffihússins da Matteo í Gautaborg hafa sett sér það markmið að bjóða uppá besta kaffið í Svíþjóð. Túristi tók hús á þeim nýverið og getur varla beðið eftir næstu heimsókn.

Það er afslappað andrúmsloft í miðborg Gautaborgar, annarrar stærstu borgar Svíþjóðar. Enda er bílaumferð haldið í lágmarki og sporvagnar sjá um að flytja fólkið á milli staða. Vagnarnir hafa yfir sér einhvern ævintýralegan blæ og helst af öllu vildi maður fá að vera einn í heiminum í smástund og setjast undir stýri.

Gangandi vegfarendum er líka gert hátt undir höfði í Gautaborg og um borgina liggja fjölmargar göngugötur þar sem nóg er af verslunum og kaffihúsum. Það er því mikið framboð af mat og drykk í miðbænum en þeir sem vilja vera öruggir með gott kaffi ættu að leita uppi Viktoriapassagen, litið, fallegt húsasund sem liggur milli tveggja verslunargata, Vallgatan og  Södra Larmgatan. En þar er da Matteo til húsa.

Á da Matteo er kaffið í aðalhlutverki enda hafa eigendurnir sett sér það markmið að selja besta kaffið í landinu. Með því er svo boðið uppá tilbúnar samlokur og sænskt bakkelsi í fyrsta klassa. Innréttingarnar eru einfaldar því barstólum er stillt upp við löng og mjó borð og ókunnungir sitja því hlið við hlið. Enda koma gestirnir koma ekki til að drepa tímann heldur í þeim tilgangi að fá sér virkilega gott kaffi og kannski að blaða í gegnum lókalblaðið, Göteborg Posten. Sumir gestanna koma meira að segja aðeins til að skella í sig einum espressó. Þannig kaffihúsagesti sér maður sjaldan hér heima.

Segja má að staðurinn sé hluti af nýrri bylgju kaffihúsa þar sem eigendurnir kaupa kaffið beint af framleiðendum, rista sjálfir og standa svo við kaffivélina og afgreiða viðskiptavinina. Og eiga sér ekki þann draum að opna kaffihús á bensínstöðvum og verslunarmiðstöðvum.

da Matteo er opið alla daga til kl. 19 en lokar klukkan fimm um helgar og er líka til húsa við Vallgata 5 sem er í stuttu göngufæri frá staðnum við Viktoriapassagen.

Túristi þorir ekki að fullyrða að kaffið á da Matteo sé það besta í Svíþjóð en gott er það.

Það eru fleiri góðir kaffibarir í Gautaborg:

Bar Italia (Prinsgatan 7) – Eins og nafnið gefur til kynna er kaffið ítalskt á þessum stað í Linnéstaden, skemmtilegu hverfi í útjaðri miðborgarinnar. 

Brunos Espresso (Postgatan 33) – Í nágrenni við hina risastóru verslunarmiðstöð, Nordstan býður Brúnó uppá gott kaffi.

Brogyllen Konditori (Västra Hamngatan 2) – Í þessu gamla, glæsilega bakaríi og kaffihúsi hanga kristalljósakrónur yfir kanelbollunum. 

NÝTT: Skautasvell í stórborgum

MYND: Túristi

 

Bookmark and Share