Gott kaffi í Gauta­borg

Eigendur kaffi­hússins da Matteo í Gauta­borg hafa sett sér það markmið að bjóða uppá besta kaffið í Svíþjóð. Túristi tók hús á þeim nýverið og getur varla beðið eftir næstu heim­sókn.

Það er afslappað andrúms­loft í miðborg Gauta­borgar, annarrar stærstu borgar Svíþjóðar. Enda er bílaum­ferð haldið í lágmarki og spor­vagnar sjá um að flytja fólkið á milli staða. Vagn­arnir hafa yfir sér einhvern ævin­týra­legan blæ og helst af öllu vildi maður fá að vera einn í heim­inum í smástund og setjast undir stýri.

Gang­andi vegfar­endum er líka gert hátt undir höfði í Gauta­borg og um borgina liggja fjöl­margar göngu­götur þar sem nóg er af versl­unum og kaffi­húsum. Það er því mikið framboð af mat og drykk í miðbænum en þeir sem vilja vera öruggir með gott kaffi ættu að leita uppi Vikt­oriapassagen, litið, fallegt húsa­sund sem liggur milli tveggja versl­un­ar­gata, Vall­gatan og  Södra Larm­gatan. En þar er da Matteo til húsa.

Á da Matteo er kaffið í aðal­hlut­verki enda hafa eigend­urnir sett sér það markmið að selja besta kaffið í landinu. Með því er svo boðið uppá tilbúnar samlokur og sænskt bakk­elsi í fyrsta klassa. Innrétt­ing­arnar eru einfaldar því barstólum er stillt upp við löng og mjó borð og ókunn­ungir sitja því hlið við hlið. Enda koma gest­irnir koma ekki til að drepa tímann heldur í þeim tilgangi að fá sér virki­lega gott kaffi og kannski að blaða í gegnum lókalblaðið, Göte­borg Posten. Sumir gest­anna koma meira að segja aðeins til að skella í sig einum espressó. Þannig kaffi­húsa­gesti sér maður sjaldan hér heima.

Segja má að stað­urinn sé hluti af nýrri bylgju kaffi­húsa þar sem eigend­urnir kaupa kaffið beint af fram­leið­endum, rista sjálfir og standa svo við kaffi­vélina og afgreiða viðskipta­vinina. Og eiga sér ekki þann draum að opna kaffihús á bens­ín­stöðvum og versl­un­ar­mið­stöðvum.

da Matteo er opið alla daga til kl. 19 en lokar klukkan fimm um helgar og er líka til húsa við Vall­gata 5 sem er í stuttu göngu­færi frá staðnum við Vikt­oriapassagen.

Túristi þorir ekki að full­yrða að kaffið á da Matteo sé það besta í Svíþjóð en gott er það.

Það eru fleiri góðir kaffi­barir í Gauta­borg:

Bar Italia (Prins­gatan 7) — Eins og nafnið gefur til kynna er kaffið ítalskt á þessum stað í Linnéstaden, skemmti­legu hverfi í útjaðri miðborg­ar­innar. 

Brunos Espresso (Post­gatan 33) — Í nágrenni við hina risa­stóru versl­un­ar­mið­stöð, Nord­stan býður Brúnó uppá gott kaffi.

Brogyllen Konditori (Västra Hamn­gatan 2) — Í þessu gamla, glæsi­lega bakaríi og kaffi­húsi hanga krist­al­ljósakrónur yfir kanel­boll­unum. 

NÝTT: Skauta­svell í stór­borgum

MYND: Túristi

 

Bookmark and Share