Malmö fær sitt eigið nýlistasafn

Íbúar Malmö þurfa ekki lengur að ferðast yfir sundið til Danmerkur til að njóta nútímalistar. Moderna í Stokkhólmi opnaði útibú í borginni á öðrum degi jóla.

Dönsku nýlistasöfnin Arken og Louisiana njóta mikilla vinsælda meðal heimamanna og ekki síst Svía sem búa á Skáni. Það er því ekki að undra að forsvarsmenn menningarlífsins í Malmö hafi barist fyrir því að Moderna nýlistasafnið í Stokkhólmi færði út kvíarnar og opnaði útibú í borginni. Því eftirspurnin eftir nútímalist greinilega mikil á Eyrarsundssvæðinu.

Moderna Malmö kallast hið nýja safn og er til húsa í gamalli rafveitubyggingu sem hefur reyndar áður hýst listasafn. Á safninu verða sýnd verk sem eru í eigu móðursafnsins en einnig verða á boðstólum sýningar sem aðeins eru settar upp í Malmö til að skapa útibúinu sess sem alvöru safn. Enda þykjast yfirmenn þess vita að þeir muni fljótt tapa samkeppninni við dönsku söfnin ef sýningarnar verða ekki í heimsklassa.

Moderna Malmö er við Gasverksgatan 22 og þangað tekur aðeins um tíu mínútur að ganga frá aðallestarstöðinni í Malmö. Það er því kjörið fyrir túrista í Kaupmannahöfn að gera sér ferð yfir til Malmö og kíkja á safnið. Það er opið alla daga nema mánudaga og aðgangseyrir er fimmtíu sænskar krónur.

NÝTT EFNI: Gott kaffi í Gautaborg

 

Bookmark and Share