Ókeypis skemmtun fyrir staurblanka í Makaó

Íslenskt viðskiptafólk sem vitja þarf fasteigna sinna í Makaó getur gert sér dagamun þar fyrir lítið. Hér listi yfir alls kyns dægradvöl sem kostar ekki krónu í þessari fyrrum portúgölsku nýlendu þar sem næstum allt snýst um peninga.

Makaó hefur verið töluvert í fréttum hér á landi undanfarið ár vegna misheppnaðra fjárfestinga íslenskra auðmanna í þessu kínverska sjálfstjórnarhéraði.

Vegna þessara umsvifa er ekki ólíklegt að skiptastjórar eða bankamenn þurfi að leggja leið sína til Makaó á næstunni. Túristi léttir hér með undir með þessum hópi og birtir lista The Lonely planet yfir þá hluti sem hægt er að gera í Makaó án þess að þurfa að taka upp veskið.

  1. The Bubble – Inní þessari hvelfingu er sett á svið mikið sjónarspil þar sem laserar, ljós og eldar eru notaðir til að segja söguna af Fjársjóði drekans. Sýningin er daglegt brauð og það er ókeypis inn.
  2. Í Makaó er hægt að taka leigubíla og strætó sem hvoru tveggja kostar ekki mikið. Þeir hagsýnustu taka hins vegar strætisvagnana sem spilavítin borga undir viðskiptavini sína. Bílstjórarnir kíkja víst aldrei á miðana og því er ekkert mál að stelast til að nota vagnanna þó maður hafi ekkert lagt undir í spilavítunum.
  3. Maturinn í Makaó er víst vel heppnuð blanda af portúgölskum og kínverskum réttum. Þeir sem vilja hins vegar ekki borga fyrir veitingarnar geta þegið smakk af sölubásum sem liggja frá Senado torginu og í átt að Sankti Páls dómkirkjunni.  
  4. Miðborg Makaó er talin til heimsmynja og þar geta gestir skoðað rústir kirkna, hofa og virkja fyrir ekki neitt.
  5. Nýlenduþorpið er minnisvarði um lífið í Makaó fyrr á öldum. Það kostar reyndar smávegis að komast þangað með strætó en hins vegar kostar ekkert inn á svæði.

Þeir sem vilja heldur slá um sig í Makaó ættu að leggja leið sína í stærsta spilavíti heims, The Venetian og freista gæfunnar.

NÝTT: Gott kaffi í Gautaborg

 

Bookmark and Share