Skautasvell í stórborgum

Skelltu þér á skauta í næstu borgarferð og gleymdu öllu um verðlausa krónu rétt á meðan þú dansar um svellið eða rembist við að standa í fæturna. 

Ferðabókaútgefandinn Lonely Planet birti nýverið lista yfir fallegustu skautasvell í heimi. Eins og gefur að skilja á New York sína fulltrúa á listanum enda hafa ófáar rómantískar kvikmyndasenur verið teknar upp á skautasvellinu við Rockefeller Center eða í Central Park.  London og París eiga líka sína fulltrúa á listanum.

Hér eru svellin sem Lonely planet mælir með að ferðamenn skelli sér út á:

New York

Í Central Park eru tvö skautasvell sem mælt er með, Wollman Rink og Lasker Rink. Það er opið alla daga á veturna og leiga á skautum kostar fimm og hálfan dollara. Fullorðnir borga rúma 6 dollara inná svellið en börn þrjá og hálfan.  Það er auðkýfingurinn og sjónvarpsstjarnan Donald Trump sem á klakann.

Þeir sem vilja heldur prófa að stíga á skauta við Rockefeller Center borga rúmlega fimmtán dollara fyrir herlegheitin. Það kostar hins vegar ekki neitt að renna sér á The Pond við Bryant Park enda borgar bankarisinn Citi reikninginn.

London

Fram til 10. janúar er hægt að skauta framhjá Tower of London. Það kostar 12 pund fyrir fullorðna en átta fyrir börn. Við Nátturusögusafnið er líka svell og hægt er að komast í Rockefeller Center stemningu við Canary Wharf. Í Hyde Park lokar hins vegar stuttu eftir áramót.

París

Við Hôtel de Ville kostar ekkert að slást í hóp franskra skautahlaupara og eins er hægt að stunda íþróttina við  Montparnasse.

Berlín

Við hið sérstaka Potsdamer Platz í höfuðborg Þýskalands er hægt að renna sér á skautum en þó aðeins fram til þriðja janúar. Berlín er mikil jólaborg og kjörinn áfangastaður fyrir Íslendinga enda er verðlagið þar miklu viðráðanlegra en í hinum stórborgunum.

MEIRA: Vegvísir um París og London

Bookmark and Share