Lokar besta veitingastað í heimi

Kokkurinn á El Bulli hefur fengið nóg. Þrátt fyrir að vera uppbókaður allt árið, handhafi þriggja Michelin stjarna og margsinnis sagður besti matreiðslumaður í heimi ætlar hann að loka staðnum sínum í tvö ár.

Úr eldhúsinu á El Bulli. Mynd: Wikicommons

Ferrán Adriá heitir hinn tæplega fimmtugi Spánverji sem galdrað hefur fram rétti sem eiga sér enga hliðstæðu. Maturinn á El Bulli í nágrenni Barcelona á Spáni er mjög sérstakur. Hráefnið er oftar en ekki erfitt að þekkja í sjón en aftur á móti er bragðið af því kunnulegt. Adriá lætur sér nefnilega ekki nægja að sneiða, rífa eða bræða ostinn heldur eyðir hann miklum tíma á rannsóknarstofu sinni til að geta breytt ostinum í púður, ravíólinu í súpu og búa til trufflu cappuccino. Vegna þessarar öfgafullu tilraunastarfsemi hefur hann verið gagnrýndur fyrir látalæti en bragðlaukar heimsins virðast engu að síður vera sammála um að maturinn sé stórkostlegur. El Bulli er því einn af sárafáum veitingastöðum í heiminum sem hlotið hafa þrjár Michelin stjörnur. En stjörnur dekkjaframleiðandans eru sennilega besta viðurkenning sem matreiðslumenn geta fengið. 

Ennþá möguleiki á borði

Það verður engin matur borinn á borð á El Bulli árin 2012 og 2013. Í viðtali við The Times lofar hann hinsvegar að árið 2014 verði ár afreka á matreiðslusviðinu. Hann segist hins vegar að núna þurfi hann góða hvíld því vinnudagarnir hafi verið langir síðustu tuttugu og fimm ár. Þeir sem vilja komast í mat hjá Adrián eiga möguleika á að panta sér borð á næsta ári en opnað verður fyrir borðapantanir síðar á árinu. Það er hins vegar vissara að vera tilbúin þegar opnað verður fyrir pantanir því alla jafna verður uppselt  á nokkrum mínútum. Svo miklar eru vinsældirnar El Bulli.

Hér má lesa mola af Jonas.is um þessi tíðindi af El Bulli.

TENGT: Vegvísir Túrista um Barcelona

MEIRA: Gott kaffi í Gautaborg