Skandinavískt sjarmatröll

Einn af vinsælustu ferðamannastöðunum í Danmörku er Humlebæk á Norður-Sjálandi. Þessi litli bær er heimavöllur Louisiana nýlistasafnsins sem nýtur mikilla vinsælda meðal Dana og ferðamanna. Það er því líklegt að einhverjir Íslendingar eigi eftir að leggja á sig klukkutíma ferðalag í norður frá Kaupmannahöfn í ár til að njóta þess sem safnið hefur uppá að bjóða.

Dagskrá Louisiana í ár var nýlega opinberuð og er hún fjölbreytt að venju. Það er hins vegar staðreynd að fyrir marga er það staðurinn sjálfur sem hefur mesta aðdráttaraflið en listmunirnir eru í aukahlutverki.

Litríkt vor

Í byrjun febrúar opnar vorsýning hússins, Farven í Kunsten. Þar verða til sýnis listaverk eftir Matisse, Míró, Kandinsky og fleiri. Verkin eru fengin að láni úr einu stærsta einkasafni heims og verða meira en hundrað listmunir til sýnis. Þann fjórða júní opnar svo sýning þar sem blandað er saman verkum eftir Andy Warhol og Edvard Munch. Sá fyrrnefndi er betur þekktur fyrir að fókusa á það ytra á meðan Munch var heillaður af sálarlífinu. Þrátt fyrir þennan mikla mun hafa leiðir þeirra í listinni margoft legið saman, t.d. notuðust þeir báðir við grafík í verkum sínum og Warhol sótti í smiðju Munch í listsköpun sinni. Fram kemur í fréttatilkynningu að tilgangurinn með sýningunni sé meðal annars að sýna fram á að Warhol hafi ekki verið eins yfirborðskenndur og hann er sagður hafa verið og Munch, að sama skapi, ekki eins djúpur. Hvað sem þessum vangaveltum líður er næsta víst að allir njóta þess að setjast að snæðingi í kaffiteríunni. Maturinn og útsýnið þaðan svíkur engann.

Þrjár aðrar sýningar verða í boði í ár, þar á meðal ein síðsumars þar sem hugverkum tískuhönnuða eru gerð skil. Sú sýning hefur þann frumlega titil, Fashion and Art.

Barnvænt

Það eru fæst börn til í að eyða miklum tíma í að horfa á listaverk. Blessunarlega er þessi skortur á áhuga barnanna engin fyrirstaða heimsóknar því á Lousiana er þriggja hæða leikherbergi fyrir börn þar sem þau geta málað, leirað, klippt og kubbað eins og þau lystir.

Lousiana er opið þriðjudaga til föstudaga frá ellefu til tíu á kvöldin en til sex um helgar. Lokað á mánudögum. Það kostar 95 dkr inn en frítt fyrir átján ára og yngri. Hægt er að kaupa miða inn á safnið með lestarmiðunum á lestarstöðvunum í Kaupmannahöfn. 

Heimasíða Louisiana.

TENGT EFNI: VEGVÍSIR UM KAUPMANNAHÖFN

Bookmark and Share