Dýrasta listaverk heims á heima í Danmörku

Bronsstytta eftir svissneska listamanninn Alberto Giacometti var seld fyrir metfé í vikunni. Söluverðið er sextíu og fimm milljónir punda sem samsvarar rúmum þrettán milljörðum íslenskra króna. Ciacometti leysir þar með sjálfan Picasso af hólmi sem dýrasti listamaður heims samkvæmt uppboðshaldaranum Sotheby’s. 

Verkið sem um ræðir ber heitið „L’Homme Qui Marche“, eða hinn gangandi maður. Kaupandinn er óþekktur og ekki er vitað hvað hann ætlar sér að gera með styttuna. Það vill hins vegar þannig til að Louisiana safnið í Danmörku á annað eintak af þessari sömu styttu. Giacometti bjó nefnilega til fleiri en eitt eintak af verkum sínum og Louisiana keypti sína styttu fyrir mörgum árum. Haft er eftir framkvæmdastjóra safnsins í dönskum fjölmiðlum að þetta séu gleðileg tíðindi en hann tekur fram að safnið megi ekki selja verk sín og því verður styttan, ásamt tuttugu öðrum verkum Giacometti, til sýnis um ókomna framtíð á Norður-Sjálandi. Hann bætir því við að hann hafi óskað eftir fundi með tryggingafélagi safnsins enda hafi verðmæti listaverkasafnsins hækkað til muna í vikunni. 

Þess má geta að nýjasta sýning Louisiana hlýtur fullt hús í dönskum fjölmiðlum í vikunni. Sýningin kallast Farven i kunsten og stendur til 13.júní.

TENGT: Skandinavískt sjarmatröll – dagskrá Louisiana í ár