Samfélagsmiðlar

Flóra veitingahúsa blómstrar í kuldanum

Kuldaboli hefur tekið ástfóstri við Kaupmannahöfn í vetur og borgin verið snævi þakin síðan í byrjun desember. Um helgar fjölmenna íbúarnir út á ísinn með skautana og gönguskíðin og hjólreiðarfólk lætur ekki kuldann slá sig út af laginu og þeytist áfram á hjólunum með kuldatár í augum. Blessunarlega getur fólkið alltaf brugðið sér inn á næsta kaffihús eða veitingahús til að fá smá hlýju í kroppinn. Og það gera margir. Því eru danskir veitingamenn brattir þessi misserin og opna hvern staðinn á fætur öðrum. Túristi mælir með þessum fimm nýju og ódýru veitingastöðum í Kaupmannahöfn.

Scarpetta

Á hinni líflegu Norðurbrú opnuðu einir farsælustu veitingamenn borgarinnar ítalskan matsölustað. Pizzur og pasta eru þar í aðalhlutverki en einnig er nautasteik (95 dkr) og pottréttur (80 dkr) á matseðlinum. Þeir sem aðeins vilja pizzu með pepperoni, sveppum og ananas verða fyrir vonbrigðum en þeir sem vilja prófa eitthvað nýtt ofan á deigið verða ánægðir með úrvalið. Pastað og pizzurnar kosta á bilinu 65 til 85 dkr. Staðurinn er mjög látlaus en notarlegur og þar er oftast setið á öllum borðum. Hér er hægt að panta borð.

Scarpetta, Rantzausgade 7, +45 35 35 08 08

Tony´s

Kokkarnir á Tony´s sækja í ítalska skólann líkt og kollegar þeirra á Scarpetta en reyna að krydda þetta örlítið með einhverskonar New York þema. Matseðillinn er því í anda íhaldsamra ítalskra veitingahúsa í Bandaríkjunum. Á Tony´s er tvísetið og fólk pantar því borð annað hvort klukkan sex, hálf sjö eða frá hálf níu og getur þá setið fram að lokun. Frá Tony ættu flestir að fara saddir enda stendur valið á milli þriggja rétta (200 dkr) eða fjögurra (250 dkr). Fyrir suma rétti þarf að borga aukalega, t.d. fyrir New York strip steikina (100 dkr). Réttirnir eru annars klassískir ítalskir og þriggja rétta seðill gæti litið svona út: Risotto í forrétt, spaghetti með kjötbollum í aðalrétt og tíramisú í eftirrétt. Matseðlinum er skipt út á tveggja mánaða fresti. Ódýrustu vínflöskurnar kosta 200 danskar krónur. Eigendur staðarins opnuðu nýverið annað veitingahús sem heitir Allo-Allo og þar er verðlagið svipað og hjá Tony en réttirnir franskir.

Tony´s, Havnegade 47, +45 33 13 33 07

Fiskebaren

Danir eru oftar en ekki gikkir þegar kemur að öðru sjávarfangi en rauðsprettu, síld og laxi. Þeir tóku hins vegar sénsinn veitingamennirnir á Fiskebaren og opnuðu veitingastað og bar þar sem gert er út á létta sjávarrétti og góð vín. Þetta féll í kramið í Köben og nú er alltaf fullt hús. Fiskebaren er í gömlu sláturhúsahverfi á Vesturbrú sem kallast Kødbyen.  Þar er líka til húsa hinn vinsæli bar, Jolene sem er í eigu íslenskra aðila. Á Fiskebaren er gert út á afslappaða stemmningu og gestirnir geta valið um að narta í smárétti eða takast á við stærri skammta.

Kødbyens Fiskebar, Flæsketorvet 100, +45 32 15 36 36

Etika

Færeyjar eru sennilega ekki ofarlega í huga fólks þegar það snæðir sushi. En Etika er útibú frá sushistað í Þórshöfn og frá Færeyjum kemur fiskurinn á danska staðinn. Maðurinn á bakvið Etika er reyndar Dani sem meðal annars stofnaði Sticks´n´Sushi staðina sem notið hafa mikilla vinsælda í Danmörku og reyndu fyrir sér á Íslandi um árið. Hér er hægt að halda reikningnum í lægri kantinum en þó skal reikna með að matur fyrir einn kosti tæplega 300 danskar.

ETIKA HEFUR VERIÐ LOKAÐ.

Aamanns

Það eru vafalaust margir á þeirri skoðun að dönsk matarmenning sé ekkert síðri en sú ítalska og japanska. Aamanns er nýlegur staður á Austurbrú þar sem stuðst er við gamlar danskar uppskriftir en þó leyfir smurbrauðsdaman sér að brydda upp á nokkrum nýjungum. Þess vegna leynast ber í biksímatnum, granatepli í hænsnasalatinu og svínabringan er bleytt með sírópi. Þrjár smurbrauðssneiðar kosta 165 dkr í hádeginu. Þetta er því klassískur danskur staður með smá skvettu af nýjungagirni.

Aamannas, Øster Farimagsgade 1, +45 35 55 33 10

LESTU MEIRA:

Ódýrt í hádeginu við Strikið

Vegvísir fyrir Kaupmannahöfn

Ódýr hótel í Kaupmannahöfn

Nýtt efni

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …