Flottustu flugstöðvarnar

Fyrstu kynni geta skipt sköpum og flugstöðvar eru sá staður sem langflestir ferðamenn koma fyrst á í nýju landi. Sem betur fer leggja margar þjóðir mikið upp úr því að taka vel á móti gestum sínum og hafa þvi byggt glæsileg mannvirki utan um flugvallarstarfssemina. Ferðatímaritið Travel + Leisure kallaði nýverið til sín sérfræðinga til að fá úr því skorið hvaða flugstöðvar í heimi væru best heppnaðar.

Þessar flugstöðvar byggingar þóttu bera af:

Terminal 3, Pekingflugvelli, Kína: Þessi þriggja kílómetra langa bygging sækir form sitt til dreka og var tekinn í notkun fyrir ólympíuleikanna í borginni árið 2008. Flugstöðin er hugsuð sem einskonar hlið að alþýðulýðveldinu Kína. 

Terminal 4, Barajas flugvelli í Madríd, Spáni: Þau í Madrid eiga sér þann draum að Barajas verði sá flugvöllur í Evrópu sem flestir fara um. Loftið er þakið bambusviði sem gerir bygginguna mjög hlýlega. Þetta er heimavöllur Iberia flugfélagsins.

Kansai, Osaka, Japan: Osakaflugvöllur var lengi vel stærsti flugvöllur heims í farþegum talið. Flugstöðvarbyggingin er eins og rör í laginu með mjög stórum gluggum. Pompidou safnið í París er hannað af sama arkitekt, Renzo Piano.

TWA álman á JFK flugvelli, New York, Bandaríkjunum: Um þennan hluta JFK flugvallar hefur enginn farþegi farið í næstum áratug. Það styttist þó í að þessi nærri fimmtíu ára bygging verði tekin í gagnið á nýjan leik. 

Sondika, Bilbao, Spáni: Flugstöðin gengur undir nafninu dúfan því útlit hennar þykir minna á fugl. Dagsljósið hefur greiðan aðgang inn í gegnum glæsilegan og risavaxinn glugga.

Flugvöllurinn í Denver, Bandaríkjunum: Úr fjarska líkist þakið á flugstöðinni hvítum tjaldbúðum sem smellpassar við fjöllin sem mynda bakgrunninn þegar komið er að vellinum úr austurátt. Denver flugvöllur hefur margsinnis verið valinn besti sinnar tegundar í N-Ameríku af viðskiptaferðalöngum.

Incheonflugvöllur, S-Kóreu: Byggingin er hönnuð af þeim sama og átti heiðurinn að flugstöðinni í Denver. Incheon er þekktur fyrir það að vera mjög þægilegur flugvöllur þar sem þjónustan er góð og hlutirnir virka. 

Chep Lak Kok, Hong Kong: Arkitektastofa Norman Foster á heiðurinn að þessari byggingu líkt og flugstöðinni í Peking. Honum hefur ekki tekist eins vel upp í Hong Kong en á móti kemur að flugstöðin er mjög vel skipulögð og meira að segja þeir farþegar sem ganga um hana í svefnpillumóki geti auðveldlega fundið leiðina út.

Marrakech Menara, Marokkó: Frammúrskarandi gott dæmi um hvernig tekist hefur að sameina nútímalega og hefðbundna íslamska byggingarlist. Arabísk mynstur gefa stórkarlalegum byggingunum hlýju að sögn dómnefndarinnar.

Tempelhof, Berlín, Þýskalandi: Tignarleg bygging hönnuð af hirðarkitekt Hitlers, Albert Speer. Farþegar eru hættir að ganga um salina sem bráðlega munu ganga í endurnýjun lífdaga sem einskonar menningarmiðstöð í stórum almenningsgarði því unnið er að því að tyrfa flugbrautirnar. Flugumferð til og frá Berlín fer hér eftir í gegnum flugvellina Tegel og Schönefeld.

Malvinas Argentinas, Ushuaia, Argentínu: Syðsti alþjóðlegi flugvöllur heims þykir skarta mjög fallegri flugstöð. Farþegarnir eru á leið til og frá Patagóníu og Antarktíku.

Kuala Lumpur, Malasíu: Hér er sótt í íslamskar byggingahefðir og lofthæðin er mjög mikil.

Carrasco, Montevideo, Úrúgvæ: Einföld bogalaga bygging með björtum sölum sem minna á gamlar lestarstöðvar segir í áliti Travel+Leisure.

NÝTT: Höll krónprinsins öllum opin

MEIRA: Heimsins bestu gistiheimili

 
 
Aðrar myndir: Wiki commons

Share |