Lissabon er höfuðvígi góðra gistiheimila samkvæmt notendum bókunarsíðunnar Hostelworld. Þrír gististaðir í borginni skipa efstu sætin á lista netsíðunnar yfir bestu gistiheimilin á síðasta ári. Athygli vekur að öll farfuglaheimilin sem komast á lista þeirra tíu bestu eru í Evrópu.
Í átta ár hefur Hostelworld verðlaunað þau gistihús sem hlotið hafa jákvæustu umsögn viðskiptavina síðunnar. Annað árið í röð er sigurvegarinn Traveller´s House í Lissabon í höfuðborg Portúgals. Þeir sem hafa eytt nóttinni þar hafa varla neitt slæmt um aðstöðuna eða þjónustuna að segja og þess vegna er það heimsins besta gisthús.
Svona lítur topp tíu listi Hostelworld út en hann er byggður á hátt í níu hundruð þúsund umsögnum:
-
Traveller´s House, Lissabon, Portúgal: Ódýrustu herbergin eru á 20 evrur en tveggja manna herbergi eru á 35 evrur. Það er einnig hægt að leigja íbúð í sama húsi.
-
Rossio Hostel, Lissabon, Portúgal: Vel staðsett í Baixa hverfinu líkt og Traveller´s House. Aðeins ódýrari kostur því tveggja manna herbergið er á 32 evrur.
-
Living Lounge, Lissabon, Portúgal: Smekklegt gistiheimili í nálægð við helstu samgönguæðar borgarinnar.
-
Academy hostel, Flórens, Ítalíu: Þetta mun vera snyrtilegasta gistiheimilið á vef Hostelworld.
-
Carpe Nogtem, Búdapest, Ungverjalandi: Hentar vel fyrir hópa því það eru engin eins eða tveggja manna herbergi.
-
The Riverhouse backpackers, Cardiff, Wales: Ódýr gisting í nágrenni við aðalíþróttaleikvanginn í Wales.
-
Lisbon Lounge house, Lissabon, Portúgal: Þetta gistiheimili er rekið af sömu aðilum og eiga Living lounge sem er í sæti númer þrjú.
-
Greg & Tom, Kráká, Póllandi: Tvö gistiheimili eru rekin undir þessu nafni í Kráká.
-
The Naughty Squirrel, Ríga, Lettlandi: Tveggja manna herbergi á 20 evrur hlýtur að teljast mjög ódýrari.
-
Lisboa Central Hostel, Lissabon, Portúgal: Herbergi fyrir tvo, fjóra, sex eða tíu miðsvæðis í Lissabon.
Þeir sem kjósa ódýrari gistingu og er alveg sama þó deila þurfi baðherbergi með öðrum gestum ættu því að kynna sér heimasíðu Hostelworld. Flest gistihúsin á listanum gera út á yngri ferðalanga og bjóða upp á fría nettengingu og sjónvarpsaðstöðu og ódýran morgunmat. Staðsetningin er líka oftar en ekki mjög góð.
NÝTT EFNI: Vegvísir fyrir túrista í Vancouver