Höll danska krónprinsins öllum opin

Undir lok þessa mánaðar verður nýuppgerð höll Friðriks krónprins í Kaupmannahöfn opnuð almenningi. Þeir sem hafa áhuga á að kíkja á slottið verða hins vegar að hafa hraðar hendur því prinsinn flytur inn í sumar og þá verður dyrunum lokað á almúgann.

Höll Friðriks áttunda við Amalienborg í Kaupmannahöfn hefur staðið tóm síðan Ingrid drottning lést fyrir bráðum tíu árum síðan. Hinum megin við slottsplanið á hins vegar dóttir hennar, Margrét Þórhildur drottning heima ásamt Hinriki prins. Friðrik sonur þeirra mun flytja inn í fyrrum híbýli ömmu sinnar í sumar en á þeim hafa verið gerðar miklar endurbætur síðustu ár.

Prinsinn mun halda heimili í höllinni eftir að hann verður krýndur Friðrik tíundi, konungur Danmerkur. Þaðan mun hann líka flytja þjóð sinni áramótaávarp sitt sem væntanlega munu enda á orðunum „Gud bevare Danmark“. En móðir hans hefur það fyrir sið að enda sín ávörp á að biðja Guð um styðja við bakið á þjóð sinni. Heyra má saumnál detta í öllu landinu þegar hún gerir sig líklega til að mæla þessi orð. Síðan skálar landinn og allir verða glaðir.

LESTU LÍKA: Vegvísir Túrista fyrir Kaupmannahöfn

Friðrik og fjölskylda flytja inn í höllina síðar á árinu og verður hún því aðeins opin almenningi fram til 30. maí. Fyrir okkur Íslendinga gæti einn af hápunktunum við hallarheimsóknina verið sá að skoða verk eftir Ólaf Elíasson sem mun prýða höllina um ókomna framtíð.

Slottið verður opin almenningi frá klukkan 10 til 17, þriðjudaga til sunnudaga. Á miðvikudögum verður opið til kl. 21. Það kostar 40 danskar krónur inn og miðana má kaupa við innganginn eða á netinu.

NÝTT EFNI:  Heimsins bestu gistiheimili

 

 

 

Share |