Hótel í eigu fræga fólksins

Heimsfrægir leikarar og popparar ferðast meira en margur. Þeir eru því sjóaðir hótelgestir og einhverjir þeirra hafa ákveðið að nýta þessa reynslu og opna sitt eigið hótel. Túristi kannaði markaðinn og fann nokkur frambærileg hótel sem eiga það öll sameiginlegt að vera í eigu fræga fólksins.   

 

Bedford Post Inn, Bedford, Bandaríkjunum: Silfurrefurinn Richard Gere er eigandi lítils sveitahótels í bænum Bedford í námunda við New York borg. Þar eru átta herbergi, jógaaðstaða og tveir veitingastaðir. Að mati Esquire tímaritsins voru veitingastaðirnir meðal þeirra bestu sem opnaðir voru á síðasta ári í Bandaríkjunum. The Farmhouse heitir sá fínni en á The Barn er boðið uppá brunch og hádegismat og einnig er bakarí á staðnum. Þangað leggja margir borgarbúar á sig ferðalag um helgar til að komast í sveitasæluna og góðan mat. Vel gert hjá Gere og konunni hans en þau tóku bæði virkan þátt uppbyggingu hótelsins. Leikarinn segist vera reglulega á svæðinu til að passa upp á að allt sé eins og það á að vera. 

The Big sleep, Bretland – Leikarinn alvarlegi John Malkovich rekur þrjú hótel í Bretlandi undir nafninu The Big sleep. Fjölskyldur á ferðalagi um Cardiff, Eastbourne eða Cheltenham ættu einna helst að taka hús á Malkovich því gististaðirnir hans eru sagðir mjög barnvænir með leikaðstöðu, borðtennisborðum og fleira. Það er ekki heldur svo dýrt að gista hjá Jóni því ódýrustu herbergin eru á um níu þúsund krónur. 

Hotel Rival, Stokkhólmi – Benny Anderson er ásamt Bjorn félaga sínum stærsta poppskáld sem Svíþjóð hefur alið. Lögin sem þeir sömdu á Abba árunum eru næstum því jafnvinsæl í dag og þau voru þegar þau komu út fyrir næstum fjörtíu árum síðan. Benny er því ekki á flæðiskeri staddur fjárhagslega og getur leyft sér að freista gæfunnar í hótelgeiranum. Rival er vel staðsett í Södermalm hverfinu sem er talinn mest hipp og kúl hluti borgarinnar. Þó Benny sé ekki alla daga á hótelinu sjálfur þá eru hans helstu höfundaverk á svæðinu því á öllum herbergjum er eintak af Abba Gold. Ódýrasta herbergið á Rival í sumar kostar tæpar fjórtán þúsund íslenskar. 

The Clarence, Dublin – Þeir liðsmenn hljómsveitarinnar U2 sem bera listamannanöfn opnuðu í sameiningu þetta fína hótel í heimaborg sinni Dublin fyrir rúmum áratug síðan. Þeir félagar sjást víst stöku sinnum innan veggja hótelsins enda er það besta auglýsingin sem The Clarence getur fengið. Ódýrasta herbergið kostar um 30.000 krónur.  

Hotel Greenwich, New York –  Robert De Niro hefur í mörg ár látið til sín taka í veitingahúsabransanum í New York. En hann á líka eitt af huggulegustu hótelunum í heimaborg sinni. Alla vega er ferðapressann á einu máli um að hótelið sé einstaklega heimilislegt og notalegt. Þar er líka ítalskur veitingastaður og japanskt spa. Það þarf því ekki að koma á óvart að gistingin er í dýrari kantinum. Nóttin kostar um sextíu þúsund krónur.

MEIRA: Dýrasta listaverk í heimi á heima í Danmörku og Ný lönd fyrir bakpokaferðalanga

TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingu í Kaupmannahöfn fyrir lesendur Túrista

 

Bookmark and Share