Læknar njóta sérkjara hjá Lufthansa

Dönskum læknum bjóðast þessa dagana sérstök kjör hjá þýska flugfélaginu Lufthansa ef þeir gerast meðlimir í vildarklúbbi félagsins og eru tilbúnir til að veita samferðarfólki sínu aðstoð í háloftunum gerist þess þörf. Læknarnir fá við skráningu í klúbbinn auka vildarpunkta sem þeir geta ráðstafað að vild og einnig munu þeir fá tilboð um ferðir á ráðstefnur í framtíðinni. Á sama tíma veita þeir upplýsingar um sérfræðiþekkingu sína sem settar verða inn á farþegalista svo áhafnir flugvéla félagsins geti leitað til læknanna í neyð.

Með þessu vonast forsvarsmenn Lufthansa til að minnka þann mikla kostnað sem fyrirtækið verður fyrir þegar millilenda þarf flugvélum til að koma veikum farþegum undir læknishendur. Í samtali við dönsku vefsíðuna Avisen.dk segir formaður siðferðisráðs læknafélagsins þar í landi að sér þyki tilboðið óeðlilegt enda séu læknar skyldugir til að aðstoða fólk í neyð. Gylliboð Lufthansa breyti þar engu um.

MEIRA: Ný lönd fyrir bakpokaferðalanga