Leigubílstjórar mega sekta sóða

Það getur reynst dýrkeypt að stíga upp í leigubíl í London á skítugum skónum. Leigubílstjórar borgarinnar eru nefnilega í fullum rétti til að leggja 40 pund ofan á fargjaldið ef farþegarnir ganga illa um bílinn. Það borgar sig því að ganga úr skugga um að enginn hundaskítur eða önnur drulla leynist undir skónum áður en sest er upp í.

Þetta er meðal þeirra ráða sem finna má í handbók sem danska ferðaskrifstofan Spies gaf út á dögunum og Jyllands-Posten greinir frá. Í bókinni er að finna fjöldamargar ráðleggingar um hvað fólk eigi að varast þegar það tekur leigubíla í útlöndum.

Meðal annarra ráða sem Spies gefur ferðamönnum er að láta leigubílstjóra í Róm ekki halda á farangrinum sínum því þeir mega rukka aukalega eina evru á hverja tösku sem þeir bera. Í Egyptalandi gildir að fylgjast vel með þegar bílstjórinn gefur tilbaka því þeir eru víst snöggir að skipta út háum seðlum fyrir þá verðminni.

Gullna reglann er hins vegar sú að passa alltaf að leigubílstjórinn keyri með gjaldmælinn í gangi.

 

NÝTT EFNI: Flottustu flugstöðvarnar

LESTU LÍKA: Vegvísir Túrista fyrir London

Share |