Vegvísir fyrir Vancouver

Það eru litlar líkur á að þjóðin eigi eftir að fjölmenna til Vancouver á ólympíuleika líkt og hún gerði til Vínarborgar þegar handboltalandsliðið var á sigurbraut. Við skulum þó ekki útiloka neitt og Túristi hefur tekið saman lista yfir það sem hæst ber í þessari kanadísku borg þegar ólympíusirkusinn er ekki í bænum.

Vancouver er af mörgum talin mest heillandi stórborgin í Kanada. Bæjarstæðið er fagurt milli fjallanna og sjávarsíðunnar og íbúarnir hafa það orð á sér að vera mikið útivistar- og íþróttafólk. Aðstaðan til að stunda heilsurækt er líka góð og veðurfarið ákjósanlegt fyrir þá sem vilja verja tímanum utandyra. Efnahagur fólks er líka almennt góður því menntunarstigið er hátt og mörg öflug fyrirtæki eru þar með starfssemi. Einnig blómstrar kvikmyndaiðnaðurinn í borginni og hún því stundum nefnd Hollywood norðursins.

Það sem er hægt að sjá og gera

Stanley garðurinn þekur næstum því helmingin af því svæði sem tilheyrir miðbænum. Hann er vel nýttur af íbúunum allan ársins hring. Í garðinum er líka sjávardýragarður og þar synda meðal annars margir sjaldséðir hvalir. The Fish house er vinsæll veitingastaður í garðinum þar sem hægt er að fá sér hádegismat eða samlokur. 

Þeir sem vilja frekar komast í evrópska stemmningu eru vel í sveit settir í hverfi sem kallast Commercial Drive og er heimavöllur elstu innflytjendanna sem rekja ættir sínar til Evrópu. Það er svolítill bóhem stimpill á hverfinu og þar er líklegast að besta kaffið sé að finna enda stöku ítalskir espressobarir á þessum slóðum.

Það er ókeypis aðgangur að listasöfnum Vancouver á meðan leikunum stendur. Vancoucer Art Gallery er eitt þeirra og opnaði nýverið sýningu tileinkaða Leonardo da Vinci.

Það er ekki ólíklegt að áhorfendur fái óstjórnlega löngun til að renna sér á skíðum eða skautum þegar þeir fylgjast með afreksfólkinu í þessum íþróttum. Fyrir þá sem ráða ekki við sig þá er skautasvell við Robson Square og skíðabrekka í Grouse Mountain

Granville eyjan lokkar til sín næstum því alla túrista sem til Vancouver koma. Í tilefni af leikunum verður mikið lagt upp úr alls kyns skemmtun á þessari litlu eyju sem er meðal annars rómuð fyrir mjög girnilegan matarmarkað sem kallast Public Market.

Verslunarleiðangur er fastur liður í utanlandsferðum langflestra. Robson Street er ágætis verslunargata og sérstaklega fyrir þá yngri á meðan þeir sem leggja meira upp úr gæðum halda til Yaletown þar sem sérverslanir og kaffihús hafa hreiðrað um sig í gömlum iðnaðarbyggingum.

Matur og drykkur

Vij´s (1480 West 11th) er mjög vinsæll indverskur veitingastaður sem meðal annars Jamie Oliver lofar í hástert. Það er ekki hægt að panta borð og það verður væntanlega þétt skipaður bekkurinn þarna í febrúar.

Chambar (562 Beatty Street) býður uppá skemmtilega blöndu af réttum mjög gjörólíka bakgrunn. Lífrænt hráefni er í hávegum haft og kokteilarnir eru víst framúrskarandi.

C Restaurant (1600 Howe Street) sérhæfir sig í að elda sjávarfang sem ekki telst vera í útrýmingarhættu. Hafa skal í huga að Greenpeace samtökin voru stofnuð í Vancouver.

Honjin (138 Davie Street) er sushi staður sem kemst víða á blað í ferðablöðum. Það er þó alls ekki víst að hægt sé að fá túnfisk sushi þar því sú tegund er víst illa leikinn eftir að sushi æðið skall á Vesturlöndum. 

Frekari upplýsingar um borgina má finna á heimasíðu ferðamálaráðs Vancouver og einnig er vegvísir CN Traveller fyrir borgina ágætur.

MEIRA: Eiffelturninn er þekktasta kennileiti í heimiHótel í eigu fræga fólksins

Bookmark and Share