Fallegustu baðstrendur Evrópu

Fáir staðir eru betur til þess fallnir að gleyma öllu um stöðu þjóðarbúsins og duglitla stjórnmálamenn, en fögur strönd við volgan og kristaltæran sjó. Stutt heimsókn á þannig stað er líklega nóg til koma meðal Íslendingnum í langvarandi gott skap og gera krísuna þolanlegri.

Hér eru þær tuttugu baðstrendur í Evrópu sem breska blaðið Times segir fegurstar. Á þeim öllum er nóg pláss fyrir okkur sem viljum fá að skola af okkur pirringinn  í sjónum og leggjast svo í sandinn og sjá til sólar.

Frakkland

Place Conguel, Bretagne

Við Quiberon hálfeyjuna liggur þessi strönd þar sem hægt er að ganga að fámenninu sem vísu. Inn á milli klettanna eru hvítar sandbreiður sem liggja að Atlantshafinu. Gott tjaldstæði er við ströndina. 

Lac de Mondély, Pýreneafjöllunum

Í franska hluta fjallgarðsins liggur fallegt vatn þar sem fjallasýnin er glæsileg. Stuttan spöl frá er lítill snotur bær sem kallast Foix. Þar er mælt með Hôtel Lons fyrir þá sem vilja verja góðum tíma á svæðinu.

Collioure, Languedoc

Það var hinum fallega bæ, Collioure sem listmálarinn Matisse fann fjölina á nýjan leik í upphafi síðustu aldar. Hann gerði fegurð bæjarins og strandarinnar góð skil í nokkrum verka sinna. Ströndin er klettótt og við hana er fjöldi hótela þar sem gestirnir geta stuðst við stiga til að komast ofan í tæran sjóinn. Bærinn er líka þekktur fyrir góða sjávarréttar veitingastaði og yfir hásumarið fjölmenna franskir matgæðinar á svæðið. Júní og september eru því bestu mánuðirnir til að heimsækja Collioure.

Piemansson ströndin, Carmague

Í sumar er síðasti séns að njóta lífsins við Piemanson ströndina frjálslegur í fasi. Bakpokaferðalangar, bóhemar og berrassaðir ferðamenn hafa hingað til haft þetta svæði út af fyrir sig og tjaldvagnana sína en núna vilja yfirvöld koma skikk á málin við þessa stærðarinnar strönd.

Ille de Porguerolles, Notre Dame

Í lítilli eyju austur frá Marseille má njóta þess að baða sig í sjónum án þess að hafa margt fólk allt í kringum sig. Notre Dame ströndin liggur í um þriggja kílómetra fjarlægð frá þorpinu þaðan sem ferjunar sigla tilbaka til suðurstrandar Frakklands. 

Palombaggi, Korsíku

Líkt og á hinni ítölsku Sardaníu þá eru strendurnar á þessari frönsku eyju mjög fallegar. Sjórinn við Palombaggi mun vera svo tær að annað eins finnst varla í Evrópu. Skógurinn nær niður að ströndinni og þar er fjöldi veitingastaða og kaffihúsa.