Flestar Michelin stjörnur í Kaupmannahöfn

Einn veitingastaður í Kaupmannahöfn var sæmdur Michelin stjörnu í dag. Bætist hann við hóp ellefu matsölustaða í borginni sem hlotið hafa þennan gæðastimpil sem flesta veitingamenn dreymir um. Kaupmannahöfn ber höfuð og herðar yfir höfuðborgir Norðurlanda þegar kemur að fjölda stjörnuveitingahúsa.

Dekkjaframleiðandinn Michelin tilkynnti í morgun hvaða veitingastaðir á Norðurlöndum hljóta Michelin stjörnur í ár. Í Danmörku hefur ríkt töluverð spenna vegna málsins og fjölmiðlar landsins gert því góð skil. Reiknuðu margir með að veitingastaðurinn Noma, sem deilir húsi með íslenska sendiráðinu í Danmörku, fengi sína þriðju stjörnu og kæmist þar með í flokk með langbestu matsölustöðum í heimi. Það gekk ekki eftir. Hins vegar fékk veitingastaðurinn AOC sína fyrstu stjörnu.

Í Stokkhólmi deila sjö veitingastaðir níu stjörnum, í Osló eru þeir 4 og þrír í Helsinki. Stjörnufjöldinn í Gautaborg er hins vegar áhugaverður því þar eru fimm matsölustaðir sem hafa hlotið náð fyrir augum sérfræðinga Michelin. Kaupmannahöfn trónir því enn á toppnum sem höfuðvígi sælkera á Norðurlöndum. Enginn íslenskur veitingastaður kemst á listann.

TENGT EFNI: Nýir veitingastaðir í ódýrari kantinum í Kaupmannahöfn

NÝTT: Hellt upp á með nýjustu tækni og vísindum

Share |