Hellt upp á með nýjustu tækni og vísindum

Ítalskar kaffivélar hafa hingað til verið besti vinur kaffibarþjónsins sem tekur vinnuna sína alvarlega. Á því kann hins vegar að verða breyting á. Núna þykir nefnilega fínasta fínt að bjóða upp á kaffi úr vél sem kallast Slayer og er bandarísk uppfinning. Með Slayer hefur kaffibarþjónninn miklu meiri stjórn á þrýstingnum á vatnsgufunni og getur því kallað fram meira bragð og aðra áferð á kaffinu en við eigum að venjast.

Enn sem komið er hafa aðeins tuttugu kaffihús í heiminum þessar dýru vélar í sinni þjónustu enda kostar stykkið hátt í tvær og hálfa milljón íslenskar krónur. Fyrsta kaffihúsið í New York sem er útbúið Slayer opnaði í byrjun árs í Tribeca hverfinu. Það heitir RBC NYC og hefur fengið mjög góðar undirtektir hjá kaffiáhugafólki sem og fjölmiðlum í Stóra eplinu. Staðurinn er til dæmis tilnefndur til verðlauna hjá Time Out tímaritinu sem besta kaffihús borgarinnar.

Á RBC er hægt að fá alla þessa hefðbundnu kaffidrykki en þeir sem vilja prófa eitthvað nýtt panta víetnamskt kaffi. Það er staup fyllt með espressó og sætri mjólk og á toppnum flýtur þykk flauelsmjúk froða. Þetta er því sæt en kraftmikil kaffiblanda.

Bollinn á RBC kostar í kringum þrjá dollara. 

Heimasíða staðarins og staðsetning.

ÞESSU TENGT: Gott kaffi í Gautaborg, Kaffið er betra í Róm en Mílanó og Gist ódýrt en með stæl í New York

NÝTT EFNI: Hvar og hvenær á að gefa þjórfé

Myndir: RBC-NYC

Share |