Mæður vinsælasti ferðafélaginn

Ef velja á sér fylgdarmann í næstu sólarferð úr röðum fjölskyldunnar þá myndu fleiri taka mömmu sína með en kærustu og kærasta. Feður eru sísti kosturinn að mati ungra Breta.

Þetta eru góðar fréttir fyrir mæður. Alla vega þær bresku því samkvæmt nýlegri könnun þar í landi getur unga fólkið ekki hugsað sér betri ferðafélaga en þær þegar valið stendur á milli fjölskyldumeðlima. Fjórðungur þátttakenda í könnuninni kýs mömmuna en í öðru sæti eru kærastar með fimmtung atkvæða. Kærustur ná aðeins tólf prósentum sem segir sitt um fjölda mömmustráka í Bretlandi. Systkini eru fyrsta val sjö af hundraði svarenda en pabbarnir reka lestina með þrjú prósent.

Það spillir þó eilítið gleðinni fyrir mömmunum að tæplega helmingur þeirra sem valdi þær segja ástæðuna vera af fjárhagslegum toga. Mæður eru, að mati barnanna, líklegastar til að draga upp veskið þegar kemur að því að borga fyrir mat og annað á ferðalaginu samkvæmt frétt Daily Mail.

Mynd: Joaquin Sorolla y Bastida/Wikicommons

Nýtt efni: Hellt upp á með nýjustu tækni og vísindum