Nýfundið Da Vinci verk í Gautaborg

Málverkið „La Bella Principessa“, sem nýlega var eignað Leonardo da Vinci, verður til sýnis í Eriksberghallen í Gautaborg næstu mánuði. Myndin er metin á 100 milljónir punda og er hápunktur sýningar á verkum helstu meistara endurreisnartímabilsins, da Vinci, Michelangelo og Rafael.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem svo stór sýning á verkum þeirra er sett upp fyrir utan Ítalíu. Rauði þráður hennar er samspil þessara þriggja og samkeppnin sem ríkti þeirra á milli.

Dyrnar opna á föstudaginn og er gert ráð fyrir tvö hundruð þúsund gestum í Eriksberghallen fram til 15. ágúst þegar sýningunni líkur. Þeir sem eru áhugasamir um endurreisnina en komast ekki til Gautaborgar þurfa ekki að hafa áhyggjur því verkin verða sett upp hér og þar um heiminn næstu átta ár.

Heiti sýningarinnar er „And there was light“ og hún er opin alla daga nema mánudaga frá klukkan tíu til átta á kvöldin. Aðgangseyrir fyrir fullorðinn gest er 225 sænskar krónur en ódýrara fyrir námsmenn og ungt fólk. 

TENGT EFNI: Vegvísir fyrir Gautaborg

Mynd: And there was light.