Svikamylla leigubílstjóra í New York upprætt

Tæpar tvær milljónir farþega hafa verið snuðaðar af leigubílstjórum í New York síðustu tvö ár. Með því að ýta á einn hnapp á gjaldmælinum gátu bílstjórarnir rukkað hærri taxta en leyfilegt var. Þannig höfðu þeir aukalega nokkra dollara út úr túrnum. Þrjátíu og fimm þúsund leigubílstjórar í borginni tóku þátt í svindlinu.

Upp komst um glæpinn þegar læknir einn kvartaði til eftirlitsstofnunnar í borginni þegar hann þurfti að borga sjö dollara fyrir skutl sem kostaði vanalega fimm. Við rannsókn á málinu kom í ljós að bílstjórinn hafði vísvitandi rukkað utanbæjartaxta en kílómetragjaldið er þá töluvert hærra en það er í innanbæjarakstri. Læknirinn var hins vegar ekki sá fyrsti sem varð fyrir barðinu á þessum ökumanni því hann hafði grætt aukalega sem samsvarar tæpum fimm milljónum króna á þennan hátt á hálfs árs tímabili. Skúrkurinn hefur verið sviptur leyfinu samkvæmt frétt New York Post.

Talið er að alls hafi 1,8 milljónir farþega borgað of hátt verð fyrir þjónustu leigubíla í New York síðustu ár vegna samskonar mála. Nánast allir bílstjórar borgarinnar eru grunaðir um græsku. Þrjú þúsund þeirra nýttu sér þetta trix að staðaldri og munu þeir fá sektir eða missa leyfið.

Mynd: Wikicommons

TENGT EFNI: Einföld gisting í flottum umbúðum í New York