Billegasta stjörnumáltíðin á Norðurlöndum

Jafnvel þegar allt lék í lyndi og hrun bankanna var okkur víðsfjarri þótti kvöldstund á Michelin veitingastað fjarlægur lúxus. Túristi stóðst hins vegar ekki mátið þegar kynnt var hvaða matsölustaðir skarta stjörnum í ár og gerði verðsamanburð meðal bestu veitingahúsa Norðurlanda. Niðurstaðan er sú að íslenskir sælkerar gera bestu kaupin á vesturströnd Svíþjóðar.

Það hefur aldrei verið ódýrt að borða mat hjá meistarakokkum. En þeir sem telja það ekki eftir sér að borga um tuttugu þúsund krónur fyrir máltíð og annað eins fyrir vínið geta hér fyrir neðan fræðst um hvaða staðir bjóða best meðal frændþjóðanna.

Svíþjóð

Ódýrustu Michelin staðirnir á Norðurlöndunum eru í Gautaborg í Svíþjóð. Á Basement kosta fjórir réttir 495 sænskar krónur en fyrir tvo rétti í viðbót þarf að bæta tvö hundruð krónum við. Kock & Vin í sömu borg tekur 595 sænskar fyrir fjóra rétti og er boðið upp á listauka á milli rétta. Túristi gerði sér nýlega ferð  á þann síðarnefnda og þótti mikið til hans koma. Innviðir staðarins eru skandinavískum stíl, látlausir og ljósir. Þjónustan er laus við tilgerð og þjónarnir fylgja réttunum ekki úr hlaði með löngum útskýringum. Í eldhúsinu eru ekki stundaðar neinar hundakúnstir og hráefnið sjálfu sér líkt þegar það er komið á diskana. Sumir réttirnir gleðja vissulega augað meira en gerist og gengur með mat.

Í höfuðborg Svíþjóðar, Stokkhólmi, kosta álíka máltíðir um 800 til 1000 sænskar krónur. Sex Michelin staðir eru þar í borg.

Danmörk

Kaupmannahöfn er sú borg Norðurlanda sem skartar flestum Michelinstjörnum. Tólf staðir í borginni hafa eina stjörnu og einn, Noma, hefur tvær. Sá nýjasti á listanum er AOC og þar er ódýrastu háklassa máltíðina að finna í Danmörku. Fjórir réttir á fimm hundruð og fimmtíu danskar krónur. Þeir sem ekki geta réttlætt það fyrir sér að borga svona mikið en vilja engu að síður prófa að borða svona fínt þá er veitingahúsið MR staðurinn. Þar kostar ódýrasti aðalrétturinn 250 danskar. Hann samanstendur af jómfrúarhumri með foie gras, valhnetum og sítrónu.

Noregur

Osló er dýr borg og á billegasta Michelin stað borgarinnar, Le Canard, kostar þriggja rétta máltíð 495 norskar. Hér er franska eldhúsið í hávegum haft en hráefnið er að mestu leyti norskt.

Finnland

Það eru fimm veitingastaðir með stjörnu í Helsinki og einn þeirra, Chez Dominique er með tvær. Luomo nefnist sá sem bættist á listann í síðasta mánuði og þar er lúxusinn ódýrastur í Finnlandi. Fimm rétta máltíð kostar 57 evrur og þriggja rétta 45 evrur. Luomo er því á mörkunum að geta kallast ódýrasti Michelin staðurinn á Norðurlöndum. Matreiðslumeistarar staðarins eru báðir uppaldir á Chez Dominique sem er, eins og gefur að skilja, mikill gæðastimpill á finnska markaðinum.

TENGT EFNI: Nýir veitingastaðir í ódýrari kantinum í Kaupmannahöfn
NÝTT EFNI: Borg og baðströnd í einni ferð