Borg og baðströnd í einni ferð

Þegar utanlandsreisunum hefur fækkað er nauðsynlegt að nýta ferðina vel. Hér eru tíu áfangastaðir í Evrópu þar sem hægt er að komast í borgarferð og sólarstrandarferð á einum og sama staðnum.

 Það er mikill kostur að verja fríinu á stað þar sem hægt er að dýfa sér í volgan sjó eftir að hafa þrætt götur stórborgarinnar í glampandi sól. Og það er munaður að þurfa ekki að velja sér kvöldmat af myndamatseðli á metnaðarlausum strandbar og geta þess í stað sest niður á huggulegum veitingastað.

Hér er listi yfir borgirnar þar sem stutt er á ströndina.

Aþena
Ein elsta höfuðborg heims er sneisafull af stórmerkilegum sögufræðum stöðum, góðum grískum veitingastöðum og fjörugum næturklúbbum. Í rúmlega tuttugu kílómetra fjarlægð frá borgarmiðjunni er að finna ágætustu baðstrendur. Til dæmis Vouliagmeni. Það borgar sig að leggja á sig þriggja kortéra ferðalag þangað í stað þess að fara á strendurnar sem eru nær borginni. Þar er sjórinn nefnilega ekki nógu hreinn.

Þeir sem vilja frekar komast í kynni við gríska eyju geta fengið far með flugbáti frá hafnarbænum Piræus og út til Aegina. Siglingin tekur þrjátíu og fimm mínútur.  Það er auðvelt að komast frá Aþenu til Piræus með metró.

Barcelona
Önnur fjölmennasta borg Spánar er ljómandi fínn strandbær. Barceloneta hverfið liggur að Miðjarðarhafinu og þar kæla borgarbúa sig niður sjónum og njóta dagsins í ró og næði á ströndinni. Viljurðu komast aðeins lengra frá borginni getur þú tekið metró út til Villa Olímpica eða út til Marbella strandarinnar. Á milli strandarferða er kjörið að njóta þess að borða góðan mat í þessari fallegu borg. 

MEIRA: Vegvísir fyrir Barcelona

Berlín
Þær gerast vart meira spennandi borgirnar en Berlín því mikið hefur gengið þar á síðustu áratugi. Í dag geta ferðamenn notið þess að spóka sig um í þessari líflegu borg fyrir lítinn pening enda er verðlagið í Berlín mjög hagstætt. Því má reikna með því að maturinn á veitingahúsi kosti næstum því helmingi minna en sambærileg máltíð kostar í Skandinavíu eða Bretlandi. 

En þó Berlín liggji ekki við sjó er nóg af vötnum í nágrenninu þar sem aðstaða til sólbaða er góð, til dæmis Wannsee og Weisser See. Inn í miðri borg er líka að finna Badeschiff, 32 metra langa laug út í Spree ánni. Það eru einnig tuttugu og fimm strandbarir í Berlín.

Feneyjar
Gestir borgarinnar hafi það stundum á tilfinningunni að Feneyjar séu að drukkna í ferðamönnum. Þrátt fyrir ferðamannastrauminn er borgin heimsóknarinnar virði enda einstök á margan hátt. Frá miðborginni gengur vatnastrætó út til Lideo strandarinnar. Bátsferðin tekur um tíu mínútur.

FRAMHALD: Strendur í Kaupmannahöfn, Lissabon, Ljubljana, Nice, Split og Stokkhólmi