Borg og baðströnd í einni ferð

Kaupmannahöfn
Langflestir kannast við sig í miðborg Kaupmannahafnar á meðan baðstrendurnar og hafnarsundlaugarnar í borginni eru framandi. Amager Strand er manngerð strönd ekki svo langt frá Kastrup flugvelli. Þar er nægt pláss fyrir þá sem vilja sóla sig eða baða sig í volgum sjónum. Það er minnsta mál að taka metró þangað út eftir (stoppistöðin heitir Amager Strand). Við Islands brygge er svo eitt af nýjustu kennileitum borgarinnar, Havnebadet. Þar er hægt að stinga sér til sunds við höfnina. Við Klampenborg og Dyrehavsbakken er líka ljómandi fín strönd, Bellevue. Þar geta fastakúnnar í Epal sest inn á Arne Jacobsen veitingastaðinn á milli boltaleikja í sandinum.

MEIRA: Vegvísir fyrir Kaupmannahöfn

Lissabon
Þessi hæðótta borg er sjarmerandi staður. Hverfi borgarinnar hafa hvert sitt einkenni og það er því ekki verra að geta gefið sér smá tíma í Lissabon. Upp í hæðar Alfama ganga gamlir gulir sporvagnar sem túristarnir fjölmenna í og niðri á sléttunni, Baixa, er hægt að setjast inn á glæsileg kaffihús og bragða á rótsterku kaffinu. Í þröngu götunum í Biarro Alto eru margvíslegar sérverslanir, Fado klúbbar og litlir matsölustaðir.

Þegar búið er að gera borginni góð skil er hægt að hoppa upp í lest sem hálftíma síðar stöðvast í bænum sjávarþorpinu Cascais. Þar eru fínar strendur og stemmningin góð þó þeir sem eru að leita að Ibiza stuði verði sennilega fyrir vonbrigðum. 

Ljubljana
Höfuðborg Slóveníu er einkar aðlaðandi smáborg. Í miðborginni er bílaumferð víða bönnuð og það skapar mjög afslappaða stemmningu. Sérstaklega við ánna Ljubljanica þar sem fjöldi veitingastaða er. Þar er til dæmis tilvalið að smakka á slóvenskum vínum. Til að komast út á strönd þarf að gera sér ferð að hinu gullfallega fjallavatni Bled eða út að hinni 46 kílómetra löngu strandlengju Slóveníu. Sjávarþorpin Portoroz, Izola og Piran eru allir brúklegir en Túristi mælir sérstaklega með þeim síðastnefnda. Jafnvel þó ströndin sé klettótt og ekki hægt að leggjast í sand.

Nice
Fimmta stærsta borg Frakklands er jafnframt næst vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Frakklandi á eftir París. Í borginni eru góð söfn, veitingastaðir, verslanir og næturklúbbar. Við strandargötuna, Promenade des Anglais eru fínasta aðstaða fyrir þá sem vilja leggjast í sandinn og baða sig í Miðjarðarhafinu.

Split
Við torg Diocletians keisara safnast skarinn saman til að njóta bestu kaffihúsa bæjarins. Fyrir íslenska launþega er Króatía kjörinn áfangastaður því þar er ódýrt að vera í samanburði við mörg önnur lönd við Miðjarðarhafið. Rétt utan við hafnarsvæðið er hin skínandi góða strönd, Bacvice. Fyrir utan borgina liggur skerjagarður þar sem fjöldi fallegra eyja liggur og strendurnar þar hafa margar orðið heimsfrægir hin síðari ár, til dæmis Hvar sem laðar að sér þotuliðið.

Stokkhólmur
Feneyjar norðursins eru ekki bara glæsileg heimsborg heldur líka þægileg ferðamannaborg. Það er auðvelt að nota almenningssamgöngur og barnafjölskyldur eru vel í sveit settar því það næg afþreying fyrir þau yngstu í borginni, t.d. í Skansen. Långholmen við Södermalm og Norr Mälarstrand við Rålambshovparken eru vinsælustu baðstaðir borgarinnar á sumrin. Þangað er hægt að komast með metró eða strætó.

Heimildir: Turen går til, Tripadvisor, heimasíður ferðamálaráða viðkomandi borga.
Mynd: Wonderful Copenhagen / Christian Alsing

 

Share |