Endurbætur fyrir 150 milljónir á hótelherbergi

Savoy, eitt glæsilegasta hótelið í London, opnar í sumar eftir að hafa verið lokað í tvö og hálft ár vegna viðhalds. Áætlaður kostnaður við endurreisnina er talinn vera nærri fjörtíu milljarðar, í íslenskum krónum talið.

Eigendur Savoy hótelsins, sem stendur á besta stað við bakka Thames-árinnar í London, hafa kostað miklu til að hefja það upp til vegs og virðingar á nýjan leik. Þeir keyptu þetta rúmlega hundrað ára gamla hótel fyrir fimm árum síðan og lokuðu undir árslok 2007 vegna uppbyggingarinnar. Verklok voru þá áætluð ellefu mánuðum síðar. Kostnaðurinn átti að verða helmingi minni en reiknað er með að hann endi í þegar verkinu lýkur undir lok sumars.

Þrátt fyrir það er hótelstýran brött í viðtali við The Times og segist sannfærð um að þetta hafi verið góð fjárfesting hjá sádí-arabíska prinsinum Alwaleed og Lloyds bankanum. En þessir tveir aðilar borguðu álíka mikið fyrir hótelið og endurbæturnar hafa kostað. Hún segir að samkeppnin verði hins vegar hörð um hótelgesti og matargesti en Savoy er ekki síður þekkt fyrir veitingastaðinn River sem þar er til húsa. Hún tekur hins vegar fram að slakað hafi verið á kröfum um klæðaburð viðskiptavina veitingastaðarins en áður var það regla að karlmenn sem snæddu á staðnum urðu að vera í jakka og með bindi. Núna er nóg að vera snyrtilegur til fara. Í árdaga hótelsins var hins vegar galaklæðnaður skilyrði, jafnvel í hádeginu.

Það eru 268 herbergi á The Savoy, þar af sextíu og tvær svítur. Ódýrasta herbergið kostar sem samsvarar tæpum sjötíu þúsund íslenskum krónum. Konunglega svítan er hins vegar sú dýrasta en allir gluggar hennar vísa út að Thames.  

NÝTT EFNI: Barcelona bragðast betur – ódýrir veitingastaðir í borginni
TENGT EFNI: Dýrustu hótelherbergi heims

Mynd: Flickr.com / DG Jones