Flugstöðin í Singapore sú besta

Changi flugvöllurinn í Singapore er sá besti í heimi. Þetta er niðurstaða könnunnar meðal hátt í tíu milljóna farþega um heim allan.

Skytrax nefnast samtök sem reglulega meta gæði þjónustunnar og aðstöðunnar á flugvöllum heimsins með hjálp flugfarþega. Changi í Singapore bar sigur úr bítum í ár en sigurvegarinn frá því í fyrra, Incheon í Seoul í S-Kóreu, varð í öðru sæti. Hong Kong þykir sá þriðji besti. Í fyrra fóru hátt í fjörtíu milljónir farþega um flugvöllinn í Singapore en um áttatíu flugfélög venja komur sínar þangað.

Sú evrópska flugstöð sem kemst hæst á listann er í Munchen í Þýskalandi og varð hún í fjórða sæti á heimsvísu. Tveir af vinsælustu flugvöllum álfunnar, Heathrow og Charles de Gaulle, fá hins vegar ekki góða umsögn og komast því ekki á lista þeirra bestu.

Hástökkvarinn frá síðasta ári er Abu Dhabi sem stekkur upp um tuttugu sæti og er nú sá 26. besti í heimi.  

Besti flugvöllurinn sem sérhæfir sig í þjónustu við lággjaldaflugfélög er Schoenefeld í Berlín. Charleroi í Brussel og Stansted í London eru í öðru og þriðja sæti í þeim flokki.

Listi þeirra tuttugu bestu:

 1. Changi, Singapore
 2. Incheon í Seoul, S-Kóreu
 3. Hong Kong
 4. Munchen, Þýskalandi
 5. Kuala Lumpur, Malasía
 6. Zürich, Sviss
 7. Amsterdam, Hollandi
 8. Peking, Kína
 9. Auckland, Nýja-Sjálandi
 10. Bangkok, Taílandi
 11. Vancouver, Kanada
 12. Kansai, Japan
 13. Nagoy, Japan
 14. Helsinki, Finnlandi
 15. Kaupmannahöfn, Danmörku
 16. Frankfurt, Þýskalandi
 17. Narita, Japan
 18. Brisbane, Ástralíu
 19. Höfðaborg, S-Afríku
 20. San Francisco, Bandaríkjunum

Mynd: Changi Airport Group 

TENGT EFNI: Flottustu flugstöðvarnar

NÝTT EFNI: Ódýr ferðamannalönd