Frítt internet í París

Nokkrar símaklefar í París hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Þeir eru nú útbúnir nýmóðins símtækjum með nettölvu.

Það eru fáir nú til dags sem vippa sér inn í símaklefa til að hringja. Hvorki hér heima né í útlöndum. Í París er nýlega hafin tilraun til að glæða klefana nýju lífi. Í nokkrum þeirra hefur verið komið fyrir símtækjum með innbyggðri nettölvu. Þessi nýjung gæti reynst ferðamönnum borgarinnar vel því jafnvel í fríinu getur verið nauðsynlegt að komast á netið. Vissulega er hægt að tengjast netinu í gegnum farsíma en margar heimasíður eru ekki þægilegar aflestrar á svo litlum skjá.

Það kostar ekkert að nýta sér þessa nýju þjónustu. En hún er nokkuð takmörkuð því aðeins er hægt að vera á netinu í tíu mínútur og bara skoða ákveðnar vefsíður. Leiðbeiningar um hvernig tækið virkar eru eingöngu á frönsku sem er líka ókostur.

Ef þessir nettengdu símaklefar slá í gegn er hugsunin að setja þá upp á víð og dreif um Frakkland árið 2012 samkvæmt frétt Berlingske Tidende.

Klefarnir eru á eftirtöldum stöðum í París: Við Eiffelturninn, Champs Élysées, Montmartre, La Villette, Place d´Italie, Saint-Michael, Saint-Germain, Grands Magasins, Montparnasse og Bercy. 

NÝTT EFNI: Ódýr hótel í Kaupmannahöfn í vor
TENGT EFNI: Vegvísir – París

Mynd: Flickr / Meg Zimbeck