Noma besti veitingastaður heims

Veitingahúsið Noma í Kaupmannahöfn var í kvöld valið það besta í heimi. Danir líkja sigrinum á San Pellegrino hátíðinni við ólympíugull. 

Danskir fjölmiðlar hafa verið með öndina í hálsinum í kvöld vegna kjörsins á besta veitingahúsi heims á San Pellegrino hátíðinni í London. Dómnefnd hátíðarinnar er skipuð meistarakokkum víðs vegar að úr heiminum og velkjast fáir í vafa um að faglega sé staðið að valinu. Noma varð númer þrjú á síðasta ári og vonuðust Danir til að nú myndi staðurinn bera sigur úr býtum. Og það varð raunin og þarlendir fjölmiðlar hafa farið mikinn í fréttaflutningi af sigrinum í kvöld og líkt honum við ólympíugull og Óskarsverðlaun.

Það er næsta víst að biðin eftir lausu borði á Noma lengist enn frekar eftir úrslitin. Nær ómögulegt hefur til dæmis verið að fá borð á fyrrverandi besta veitingastað í heimi, El Bulli á Spáni. Biðtíminn hefur verið um tvö ár. Á Noma hefur biðin verið um þrír mánuðir allt frá því að staðurinn hlaut sína aðra Michelin stjörnu fyrir tveimur árum síðan.

Sigur Dana í kvöld er okkur Íslendingum líka fagnaðarefni því á Noma er fókuserað á norrænt hráefni og má oft finna íslenskar afurðir á matseðlinum. Staðurinn deilir líka húsnæði með sendiráði Íslands í Danmörku.

TENGT EFNI: Billegasta stjörnumáltíðin á Norðurlöndum og Nýir veitingastaðir í ódýrari kantinum í Kaupmannahöfn

Mynd:Woco

Share |