Nota iPad til að vísa gestum veginn

Starfsmenn Intercontinental hótelanna krota ekki lengur á landakort þegar þeir aðstoða hótelgesti við að rata í útlöndum. Þess í stað draga þeir upp iPad, nýjustu Apple græjuna, til að sýna þeim staðsetningar á landakortum Google. Tæknin gerir starfsfólkinu líka kleift að blaða í gegnum matseðla veitingahúsa á skjánum með gestunum og sýna þeim myndir frá markverðum stöðum í borginni.

Þessi viðbót við tækjakost Intercontinental var kynnt starfsfólkinu í byrjun mánaðarins þegar iPad kom á markað. Haft er eftir einum af stjórnendum hótelkeðjunnar á netsíðu The Times að það sé mjög algengt að hótelgestir leiti eftir ráðum starfsmanna í lobbíi og dyravarða. Þessi litla tölva gerir þá þjónustu markvissari að mati stjórnandans.

Ekki fylgi sögunni hvernig gestirnir fóta sig þegar þeir eru komnir út á götu því ekki stendur þeim til boða að taka tölvuna með sér. Gamla góða landakortið verður sennilega fyrir valinu hjá þeim flestum og lifir það því enn góðu lífi.

NÝTT: Barcelona bragðast betur – ódýrir veitingastaðir í borginni 

Mynd: Flickr.com / John Karakatsanis