Ódýr ferðamannalönd

Það eru margir illa haldnir af útþrá þessi misserin en þora ekki út fyrir landsteinana vegna stöðu krónunnar. Hér er listi yfir tíu lönd þar sem ferðamenn geta notið lífsins án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Sá galli er á gjöf Njarðar að aðeins eitt Evrópuríki kemst á þennan lista ferðabiblíunnar Lonely Planet. Það er því líklegt að kostnaðurinn við að komast til ódýru landanna sé töluverður. Og hafa skal í huga að stjórnmálaástandið í mörgum þeirra er miður gott. 

Indland
Indland hefur lengi laðað að sér blanka ferðamenn. Lonely Planet mælir sérstaklega með því að fólk noti tímann í svölu fjallaloftinu í norðurhluta landsins eða í strandbænum Port Blair. Taj Mahal og aðrir þekktir túristastaðir í Indlandi geta beðið betri tíma.

Nepal
Heimaland Mount Everest kemst oftar en ekki á vinsældalista viðförulstu ferðalanga. Sérstaklega þeirra sem vilja njóta nátturunnar. Eitt af því allra besta við Nepal er samt verðlagið.

Indónesía
Strendurnar í Indónesíu er meðal þeirra allra fegurstu. Ótryggt ástand í landinu fælir hins vegar ferðamennina frá. Lonely planet fullyrðir að það sé auðveldlega hægt að njóta lífsins í Indónesíu fyrir minna en 2500 íslenskar krónur á dag. En þó aðeins ef sneitt er framhjá allra vinælustu ferðamannastöðunum. 

Íran
Í Íran er hægt að upplifa sögufræga staði án þess að þurfa að standa í röð eða deila upplifuninni með hundruðum ferðamanna. Ástandið í landinu er ekki eins slæmt og af er látið og íbúarnir taka vel á móti gestum sínum. Hótelgisting og góður matur kostar rúmar þrjú þúsund krónur á dag.

Pólland
Austur-Evrópa er ekki lengur hræódýr fyrir ferðamenn en verðlagið í Póllandi er hins vegar ennþá mjög hagstætt. Þar er líka margt að sjá og mælir Lonely Planet sérstaklega með bænum Krasnystaw í Lubelskie héraði en hann mun vera gott dæmi um fallegan pólskan smábæ.

Þess má geta að lesendur vefsíðu Lonely Planet eru ekki allir sáttir við að Pólland sé á listanum og vilja meina að það sé löngu orðið dýrt að dvelja þar. Úkraína er að mati flestra þeirra mun fýsilegri kostur.

Laos
Löndin í Suðaustur-Asíu eru ekki dýr og Laos er þeirra ódýrast. Fossarnir við Tat Sae eru mikifenglegir og það kostar ekkert að virða þá fyrir sér.

Súdan
Það er ekki auðvelt að finna far til Súdan né komast inn fyrir landamærin. Þær fréttir sem við fáum af ástandi mála í landinu eru heldur ekki það góðar að ferðamenn eru tilbúnir til að leggja á sig ferðalagið þangað. Þeir sem taka sénsinn uppskera hins vegar ríkulega. Nótt á hóteli kostar um 10 dollara og falafel um einn dollara.

Hondúras
Þeir sem vita fá betra en að vera neðansjávar eru í góðum málum í Hondúras. Sjórinn er tær og strendurnar hvítar og ferðamannaiðnaðurinn er ennþá vanþróaður. Það gæti hins vegar breyst á næstunni. 

Marakkó
Það er auðvelt að komast til Marakkó frá Evrópu. Fyrir um það bil fimm þúsund krónur á dag er hægt að njóta lífsins að hætti heimamanna. Það er samt vissara að gefa harðsnúnum teppasölumönnum ekki færi á sér því þá er voðinn vís. 

Jórdanía
Einn af þekktustu ferðamannastöðum Miðausturlanda er Petra í Jórdaníu. Þökk sé Indiana Jones. Þeir sem vilja sjá þann stað með berum augum þurfa því ekki að kosta miklu til því það er ódýrt að vera í Jórdaníu. Nótt á hóteli kostar um fimm dollara og maturinn um það bil helmingi minna.

Mynd: Flickr – MrSnooks

NÝTT EFNI: Binda vonir við Hróa hött

TENGT EFNI: Heimsins bestu gistiheimili

 

Share |