Pabbi Sarkozy opnar málverkasýningu

Hinn rúmlega áttatíu ára gamli Pál Sarkozy, faðir Frakklandsforseta, sýnir eigin listsköpun í galleríi í París næstu vikurnar. Málverk af forsetahjónunum og nöktum konum verða áberandi á sýningunni.

Pál Sarkozy er ungverskur aristókrati sem flúði heimalandið árið 1948 þegar kommúnistar tóku þar völdin. Hann settist að í Frakklandi og vann fyrir sér sem teiknikennari og síðar auglýsingahönnuður. Í ellinni hefur hann einbeitt sér að listmálun og í þýska blaðinu Spiegel eru verk hans sögð vera raunsæ en samt eilítið draumkennd. 

Samband listamannsins við son sinn mun ekki vera sérstaklega gott. Pál hefur viðurkennd að hann hafi verið mikill kvennamaður og skildi við barnsmóður sína þegar synir hans voru mjög ungir. Sá gamli er ennþá með kvenfólk á heilanum og málar mikið af nöktum konum. Myndir af syninum og tengdadótturinni, Carla Bruni, verða líka þónokkrar á sýningunni ef marka má fréttir af atburðinum.

Sýningin opnar á Escape Pierre Cardin galleríinu undir lok mánaðarins. Verkin kosta flest um átta þúsund evrur sem samsvarar tæpri einni og hálfri milljón íslenskra króna. Það er þó líklega frítt inn og þeir sem eru að leit að ódýrri skemmtun í París í vor ættu því að kíkja við í þetta gallerí í námunda við Sigurbogann.

NÝTT EFNI: Borg og baðströnd í sömu ferð
TENGT EFNI:
Sjá og gera í París

Mynd: Wikicommons