Pylsusalinn hans Obama í útrás

Innan tíðar þarf ekki að gera sér ferð til Washington til að borða á Ben´s Chili Bowl, uppáhalds pylsusjoppu Bandaríkjaforseta. Þangað flykkjast daglega fjöldi ferðamanna og eigendurnir telja sig því eiga mikla möguleika í útlöndum.

Ben´s Chili Bowl hefur ávallt notið vinsælda í Washington og verið vel sóttur af fræga fólkinu. Tónlistarmenn eins og Miles Davis, Duke Ellington, Ella Fitzgerald og Nat King Cole voru meðal fastagesta á sjöunda áratugnum og í kjölfarið komst staðurinn á kortið hjá ferðamönnum.Vinsældirnar jukust hins vegar til mikillar muna í fyrra þegar Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mætti á staðinn í fylgd sjónvarpsfólks og fékk sér reykta pylsu í brauði þakta Chili con carne.  En þessi réttur er í mestu uppáhaldi hjá forsetanum. Myndir frá þessu voru sýndar um öll Bandaríkin og allar götur síðan hafa bræðurnir tveir, sem tóku við staðnum af föður sínum í fyrra, vart haft undan að afgreiða forvitna ferðamenn og fyrirmenni. Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti kíkti til dæmis við í marsmánuði og tók með sér nokkra ljósmyndara sem mynduðu heimsóknina bak og fyrir. Þannig barst hróður pylsustaðarins enn víðar samkvæmt frétt danska blaðsins Information.

Eigendurnir hafa af þessum sökum lagt drög að því að opna fleiri staði vítt og breytt um heiminn í samstarfi við heimamenn á hverjum stað. Ef undirtektirnar verða góðar má því vænta þess að útibú frá staðnum í Washington skjóti upp kollinum á víð og dreif á næstu árum. 

Ben´s Chili Bowl er til húsa á 1213 U Street NW í Washington

NÝTT EFNI: Barcelona bragðast betur – ódýrir veitingastaðir í borginni
TENGT EFNI: Pylsuvagn besti matsölustaður ársins í Köben

Mynd: Flickr.com / dbking